Þrjú atriði sem gera baðrýmið betra

Baðrými geta fljótt orðið draslaraleg ef við hugum ekki að …
Baðrými geta fljótt orðið draslaraleg ef við hugum ekki að skipulaginu. mbl.is/Unidrain

Það þarf oft ekki mikið til að umbreyta rými til hins betra. Hér eru nokkur vel valin atriði sem þú getur útfært á baðherberginu án mikils tilkostnaðar. 

Handsápan
Plastumbúðir eru sjaldan þær fallegustu - og þá vitnum við hér í handsápuna sem við kaupum út í búð. Þá er upplagt að festa kaup á sápuskammtara sem þú fyllir á eftir þörfum. Það er ekki bara fallegt, heldur líka umhverfisvænt. Og fyrst að við erum byrjuð að breyta til, þá mælum við með að velja sápuskammtara og t.d. klósettburstastatíf í stíl - það minnkar áreitið fyrir augað inn í rýminu. 

Geymslurými
Það er notalegt að geta gripið í hversdagshlutina eins og handklæði, ilmvatn, sjampó og aðrar húðvörur - en við þurfum líka að hugsa út í hvernig við geymum vörurnar á meðan þær eru ekki í notkun. Baðherbergi geta fljótt orðið draslaraleg, sérstaklega ef þau eru lítil. Hér gæti til dæmis verið gott ráð að raða öllum sjampóbrúsum snyrtilega saman í hillu inn í sturtuklefanum - en það finnast margar slíkar sem hægt er að festa auðveldlega á flísarnar án þess að draga fram borvélina. Eins má kaupa hvers kyns smart geymslubox undir þarflegan óþarfa. 

Lyftu rýminu upp
Sé baðherbergið í smærra lagi, má vel nota veggina undir t.d. hillur eða jafnvel til að hengja klósettburstann upp. Það léttir á rýminu þegar hlutir liggja ekki á gólfinu og allt verður mun auðveldara í þrifum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert