Uppskriftin komin frá presthjónum í Alabama

Ljósmynd/María Gomez

„Þessa uppskrift af súkkulaðiköku er ég búin að eiga í fjöldamörg ár, en hún er mín allra uppáhalds súkkulaðikaka,“ segir matarbloggarinn og eldhúsgyðjan María Gomez á Paz.is um þessa súkkulaðiköku sem hér er skreytt eftir kúnstarinnar reglum fyrir Hrekkjavökuna.

„Kakan er mjög dökk og bragðmikil en jafnframt afar létt og mjúk í senn. Upprunalega uppskriftin er fengin hjá presthjónum í Alabama sem vinkona mín dvaldi hjá á sínum tíma. Ég fékk uppskriftina frá henni en ég ákvað að breyta nokkrum atriðum í henni og varð hún enn betri. Hér notast ég bara við skál og sleikju en mér finnst best að gera hana án hrærivélar því þannig tryggi ég að kakan verði ofsalega mjúk og ekki of seig,“ segir María og við erum spennt að prófa!

Dásamlega mjúk og létt súkkulaði hrekkjavökukaka

Hægt er að nota þessa uppskrift í tvo 26 cm botna og setja þá krem á milli og ofan á. Eða að gera hana eins og ég gerði en ég setti hana í hringlótt formkökumót með gati í miðjunni, en það þarf að vera í stærri kantinum.

 • 400 g sykur 
 • 220 g hveiti 
 • 75 g bökunarkakó dökkt
 • 1,5 tsk. lyftiduft 
 • 1,5 tsk. matarsódi 
 • 1 tsk. fínt borðsalt 
 • 2 egg 
 • 250 g súrmjólk 
 • 75 g matarolía 
 • 2 tsk. vanilludropar 
 • 200 g sjóðandi heitt kaffi (ég set yfirleitt bara 200 g/ml af sjóðandi vatni í bolla og hræri 1 tsk. instantkaffi útí, það kemur ekki kaffibragð af kökunni heldur bara dýpkar súkkulaðibragðið) 
 • 100 g súkulaðidropar dökkir (myndi sleppa ef bakaðir eru tveir botnar, nota bara í formkökuna)

Kremið 

 • 125 g mjúkt smjör 
 • 210 g flórsykur 
 • 65 g hvítt súkkulaði 
 • 1 tsk. vanilludropar 
 • 2 msk. rjómi 
 • appelsínugulur matarlitur 

Aðferð

Kakan 

 • Hitið ofn á 175 °C blástur eða 185°C án blásturs 
 • Setjið öll þurrefnin saman í skál og hrærið létt saman með sleikju 
 • Bætið næst eggjum, olíu, vanilludropum og súrmjólkinni saman við og hrærið létt saman þar til verður að kekkjóttu klístruðu og þykku deigi en ekki hræra of mikið 
 • Hellið svo sjóðandi heitu kaffinu saman við og hrærið varlega saman með sleikju þar til deigið er þunnt og fallega glansandi, reynið að komast af með að hræra sem minnst eða bara þar til allt er rétt blandað saman 
 • Bætið síðast við súkkulaðidropum og hrærið létt saman
 • Smyrjið næst form mjög vel að innan með þykku lagi af smjöri, ef þið notið fomkökuform þarf líka að sáldra smá hveiti inn í það yfir smjörið og hrista allt umframhveiti af
 • Ef þið ætlið að gera tvo botna í 26 cm hringformum þá er nóg að smyrja bara að innan með smjöri 
 • Bakið í 45-50 mínútur en gott er að stinga prjón í miðja kökuna og ef hann kemur hreinn upp úr er kakan til
 • Ef þið ætlið að baka 2x 26 cm botna er nóg að hafa hana í ofninum í 35 mínútur eða þar til prjónn kemur hreinn upp úr
 • Látið kólna vel áður en kremið er sett á

Kremið 

 • Bræðið súkkulaðið og látið það kólna ögn án þess að það stífni aftur (best að bræða yfir vatnsbaði)
 • Þeytið mjúkt smjörið á miðlungshraða þar til það verður ögn loftkennt, bætið þá flórsykrinum smátt og smátt útí svo hann fuðri ekki upp um allt 
 • Bætið næst rjóma, vanilludropum og súkkulaðinu ásamt matarlitnum út í og hrærið þar til kremið verður loftkennt og mjúkt
 • Ég tók plastsprautupoka og klippti gat á hann en notaði engan stút og sprautaði svo kreminu á í svona ræmur 
 • Ef þið ætlið að gera tvo botna með kremi á milli og allt um kring er betra að tvöfalda kremuppskriftina til að hafa nóg krem
Ljósmynd/María Gomez
mbl.is