Tveir hreindýraborgarar í boði í ár

Jólamatseðlar veitingahúsa eru óðum að fara í gang og eins og undanfarin tólf ár er hreindýraborgarinn Rúdolf mættur á Fabrikkuna.

Að sögn Jóhannesar Ásbjörnssonar, markaðs- og kynningarstjóra Gleðipinna, sem eiga Fabrikkuna, er það alltaf mikið gleðiefni þegar Rúdolf mætir á matseðillinn en hann er í boði á aðventunni eða á meðan birgðir endast.

Rúdolf er heilagur hjá okkur á Fabrikkunni. Þessi hreindýraborgari hefur fylgt okkur frá upphafi og kemur í raun með jólin á hverju ári. Það er töluverður hópur viðskiptavina sem kemur á hverju ári eingöngu til að fá sér Rúdolf,“ segir Jóhannes og bætir því við að Rúdolf sé um margt merkilegur jólaborgari. „Sjálft hreindýrakjötið er blandað með apríkósum og gráðaosti og glóðargrillað á funheitu grilli. Ofan á kjötið leggst svo trönuberjalauksulta, pikklað rauðkál, klettasalat og bræddur cheddarostur. Rúdólfur er svo borinn fram með sætum frönskum og jólasnjó.“ Það var matreiðslumeistarinn Eyþór Rúnarsson sem hannaði borgarann og hefur séð um uppfærslur á honum í gegnum árin.

Rúdolf er þó ekki eini jólaborgarinn í veitingahúsakeðju Gleðipinna því að sögn Jóhannesar var hannaður nýr borgari og það voru þeir Hinrik Lárusson og Viktor Örn Andrésson, kenndir við Sælkerabúðina, sem það gerðu.

Borgarinn verður í boði á Stælnum (áður American Style) og heitir því viðeigandi nafni Christmas Style. 

Borgarinn er gerður úr 150 grömmum af úrvalshreindýrakjöti með bræddum Búraosti, pikkluðu rauðkáli, salati, steiktum sveppum, japönsku majói og BBQ-sósu.

Jóhannes segir að það verði spennandi að fylgjast með aðventunni og hvor hamborgarinn verði vinsælli meðal neytenda því ljóst sé að Christmas Style-borgarinn gefi Rúdolf ekkert eftir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert