La Madre Pizza - ítalska pítserían hennar Ásu

Ása ásamt Emanuel syni sínum.
Ása ásamt Emanuel syni sínum.

Veitingastaðurinn La Madre Pizza var opnaður á Suðurlandsbraut 12 fyrr á þessu ári og á sama tíma í Krónunni í Skeifunni. Um er að ræða nýja tegund af pítsu hér á landi – svokallaðar pala-pítsur sem eru rísandi stjarna í ítalskri matarmenningu. Það eru hjónin Ása Regins og Emil Hallfreðsson sem standa að baki veitingastaðnum en þau eru einnig fólkið á bak við ítalsk/íslenska vörumerkið Olifa sem slegið hefur í gegn hér á landi og er hugarfóstur Ásu, sem stofnaði fyrirtækið í eldhúsinu heima hjá sér á Ítalíu.

„Ég var mjög mikið ein heima hjá mér með barn og langaði svo að finna mér verkefni sem ég gæti sinnt á Ítalíu á meðan Emil spilaði fótbolta. Fjarbúð var óspennandi kostur og því var ég staðráðin í að finna leiðir fyrir mína ástríðu líka. Við höfðum tekið eftir því þegar við komum heim til Íslands á sumrin að við áttum í erfiðleikum með að nálgast góða ólífuolíu. Ég hugsaði því með mér að þetta væri eitthvað sem ég myndi vilja laga og væri hreinlega lýðheilsumál – því gæðajómfrúarólífuolía er ein sú besta fita sem völ er á fyrir mannslíkamann og mikilvægur partur af heilbrigðu mataræði. Draumurinn var því að koma ítalskri hágæðajómfrúarolíu almennilega fyrir á íslenskum markaði, bæði hvað varðar verð og aðgengi. Í krafti þess að ég hef alltaf haldið úti bloggi/samfélagsmiðli gat ég með einföldum hætti komið skilaboðunum áfram til frábærs hóps fylgjenda minna, sem eiga sinn risastóra þátt í því hversu vel hefur gengið,“ segir Ása en á þessum tíma bjó fjölskyldan í borginni Udine. Ása segist hafa fundið nafn, græjað lógó og umbúðir og haldið af stað í þetta ferðalag, sem hefur reynst ákaflega gæfuríkt.

Einhvers staðar þarf kona að byrja

Aðspurð um tilurð þess að þau ákváðu að opna pítsustað á Íslandi segir Ása að hugmyndin hafi fyrst og fremst verið að bjóða viðskiptavinum Olifa upp á alvöru ítalskan mat eins og þau hjónin séu svo hrifin af. „Hugmyndin var fyrst og fremst sú að okkur langaði að opna dyrnar fyrir viðskiptavini Olifa og bjóða Íslendingum til borðs með okkur og njóta þess sem Ítalía er í raun og veru. Hér snýst allt um gæði hráefnisins. Pítsustaður var ein hugmyndin – einhvers staðar þarf kona að byrja – og pala-sælkerapítsur fannst mér frábær byrjun, enda er sú tegund af pítsu rísandi stjarna á ítalskri grundu og gaman að kynna Íslendingum þessa mögnuðu vöru, sem við höfum elskað í mörg ár.“

Ása segir pala-pítsurnar um margt sérstakar. „Hér mætast áralöng þekking og reynsla og nýsköpun ásamt fyrsta flokks ítölskum hráefnum. Hugsunin á bak við pala-sælkerapítsu er sú að hún er bæði dásamleg í munni og svo það mikilvægasta; hún er létt í maga og okkur líður vel eftir máltíðina. Þótt annað mætti virðast þá er pala-pítsan einstaklega létt og góð í maga, sem er ekki síst ástæðan fyrir vinsældum hennar.

Ólíkt klassískri Napoletana-pítsu er pala-pítsa sívalningur í laginu og dregur hún nafn sitt af þar til gerðu „pala“; trébretti sem notað er við baksturinn. Pala-pítsa er einnig há og loftkennd en deiginu er leyft að hefast í að minnsta kosti 24 klukkustundir áður en það er bakað. Deigið inniheldur hlutfallslega mikið af vatni og svo er það bakað í langan tíma við lágan hita.“

Hráefnið skiptir öllu máli

Ása segir að lykillinn að góðri pítsu sé ekki síst að vera með úrvalshráefni. „Við flytjum allt ítalska hráefnið inn sjálf og verslum við ábyrga ítalska bændur. Á matseðlinum má finna DOP-upprunavottað álegg, sem tryggir svo sannarlega gæðin. Gæðin endurspeglast svo í bragðgóðri máltíð og vellíðan eftir mat. Til gamans þá er pepperóníið okkar „spianata calabrese“-pepperóní, sem við Emil smökkuðum fyrst þegar hann spilaði með Reggina 2007. Okkur þótti það svo gott og því kom ekki annað til greina en að vera með það á matseðlinum okkar. Það kemur okkur því ekki mikið á óvart að „spianata“ er ein vinsælasta pítsan á La Madre.

Á La Madre Pizza-pítseríunni á Suðurlandsbraut bjóðum við matargestum okkar upp á 100% ítalska hágæðaólífuolíu með pítsunum sem kemur af ökrunum okkar umhverfis Verona, Olifa Classico og Terre di Olifa. Við vitum hins vegar að margir eiga sína uppáhalds Olifa-olíu og því hvet ég viðskiptavini okkar til að biðja um „sína“ olíu með pítsunni.“

„Hvað í ósköpunum er ég búin að koma mér út í?“

Á svipuðum tíma og Ása opnaði La Madre Pizza á Suðurlandsbrautinni var einnig opnað útibú í Krónunni í Skeifunni sem hefur mælst vel fyrir enda afar þægilegt fyrir neytendur að geta sinnt innkaupunum og gripið kvöldverð með sér heim í leiðinni. Ása segir aðdragandann að því samstarfi hafa verið langan og verið undanfarann að opnun staðarins á Suðurlandsbraut. „Við höfum unnið vel með Krónunni með Olifa-vörurnar okkar og því ákvað ég að kanna hvort þeir hefðu áhuga á enn frekari samstarfi og vera með „take-away“ í nýrri verslun Krónunnar í Skeifunni. Þau eru fagmenn fram í fingurgóma og fyrir óreynda manneskju í bransanum hefur verið dýrmætt að fá tækifærið á svo stórum vettvangi – enda hugsaði ég í marga mánuði eftir fundinn hvað í ósköpunum ég væri búin að koma mér út í!“ segir Ása og bætir við að sér hafi þótt þetta afar snjöll hugmynd – þá ekki síst því pala-pítsurnar séu svo heppilegar til að grípa með sér.

Fullkomin máltíð í „take-away

„Eitt af því frábæra við pala-pítsur er að þær eru tilvaldar í „take-away“. Þú kaupir hana ferska hjá okkur, ferð með hana heim og bakar í sjóðandi heitum ofninum. Á diskinn þinn kemur svo nýbökuð pítsa sem er stökk að utan og mjúk að innan, osturinn bráðnaður og áleggið bakað. Algerlega ómótstæðilegt. Einn af kostum pala-pítsunnar er líka sá að pítsan geymist í nokkra daga í ísskáp, þú getur því auðveldlega sótt hana á fimmtudegi og snætt hana á laugardegi sem dæmi.“

Fluttu bakarana inn frá Ítalíu

Þegar kynna á nýja pítsutegund fyrir landanum er eins gott að vanda til verks og segir Ása að mikið hafi verið lagt í að finna rétta fólkið til samstarfs. „Við fundum tvo frábæra bakara frá Vicenza, þá Andrea Lorenzi og Matteo Loreni, sem eru magnaðir í sínu fagi. Það er mikil kúnst að baka brauðið og því var mikill sigur fyrir okkur þegar þeir samþykktu að flytja til Íslands fyrir verkefnið. Við leituðum svo líka til Leandros Martins Gramaglia og Leonardos Rossos Collettis, sem báðir eru kærir vinir okkar til fjölda ára. Ég verð þeim öllum ævinlega þakklát fyrir að hafa slegið til og sökkt sér í verkefnið með okkur. Við höfum því fjóra ítalska fagmenn sem standa vörð um ítölsku gæðin hverju sinni. Svo eru það Gleðipinnar sem sjá um daglegan rekstur staðanna. Við Emil búum enn á Ítalíu og þetta væri ekki hægt nema með góða samstarfsaðila á Íslandi.“

Góðir hlutir gerast á réttum hraða

Ása segir að viðtökurnar hafi verið frábærar og sérstaklega hvað fólk er duglegt að koma aftur eftir að hafa prófað. „Við höfum þá trú að góðir hlutir gerist á réttum hraða. Þess vegna höfum við ekki mikið auglýst. Við viljum að pítsan auglýsi sig sjálf. Við opnuðum útibúið í Krónunni í byrjun júlí og fengum frábærar viðtökur. Veitingastaðurinn á Suðurlandsbrautinni var opnaður mánuði síðar og þar ákváðum við að fara okkur hægt, höfðum fyrst einungis opið á kvöldin en erum nú komin í fullan afgreiðslutíma og þar er líka „take away“, sem er afar vinsælt, til dæmis hjá fyrirtækjum í grenndinni. Við erum himinlifandi með móttökurnar,“ segir Ása en hún hefur verið ötul á samfélagsmiðlum að kynna vörur Olifa og lagt ríka áherslu á að allt framleiðsluferlið sé gegnsætt. „Fyrir mér er þetta lýðheilsumál. Ég hef einnig lagt mig fram við að fræða og kynna fylgjendum mínum á samfélagsmiðlum DOP/IGP-upprunavottanir. DOP/IGP eru gríðarlega mikilvægar vottanir sem tryggja að varan sé ræktuð, pakkað og framleidd samkvæmt ströngum skilmálum Evrópusambandsins, sem er æðsti vottunaraðili okkar heimsálfu. Við erum til að mynda með DOP/IGP-vottaðar olíur, parmesanost og balsamedik, sem og DOP-vottaða osta, á La Madre Pizza. Við reynum því að sinna sem allra best þeim sístækkandi hópi fólks sem velur gæði heilsu sinnar vegna, lætur sig aðbúnað starfsfólks varða og heilbrigði náttúrunnar.“

Löngu kolfallin fyrir Ítalíu

Lífið á Ítalíu er gott að sögn Ásu enda fjölskyldan dvali þar lengi og skotið rótum. „Hér höfum við alið manninn undanfarin 15 ár eða svo og viljum helst hvergi annars staðar vera. Við erum fyrir löngu kolfallin fyrir menningunni, fólkinu, umhverfinu og matnum og erum rík að eiga bæði Ísland og Ítalíu í hjarta okkar. Verona er dásamleg borg, falinn demantur sem æ fleiri Íslendingar falla fyrir.“

Lýsingar Ásu á dæmigerðum degi á heimilinu eru sérlega skemmtilegar og ljóst að lífið í Verónaborg er litríkt og skemmtilegt. Stöðugur gestagangur og mikið líf og fjör!

Ása segir dæmigerðan dag á heimilinu fela í sér að börnin fari í skólann og hún nýti tímann á meðan til að sinna sínum margþættu verkefnum. Hún leggur jafnframt áherslu á góða hreyfingu. „Ég fer iðulega út að hlaupa ásamt því að stunda jóga og pílates. Emil spilar enn fótbolta af fullum krafti og undirbýr sig því fyrir æfingar og leiki ásamt því að sinna öðrum verkefnum. Tómstundir barnanna, krefjandi heimanám og svo góður kvöldmatur saman. Antonella, hin ítalska amma barnanna okkar, kíkir hér við tvisvar til fjórum sinnum á dag og því iðulega mikið líf hér heima enda búum við miðsvæðis og heppilegt fyrir marga að líta í stuttan kaffisopa – enda iðulega opnar útidyrnar hérna hjá okkur.“

Fjölskyldan ver einnig miklum tíma á Íslandi enda stærstur hluti frændgarðsins hér á landi. „Við kíkjum alltaf heim á sumrin og um jólin og njótum þess vel. Börnin okkar, Emanuel og Andrea Alexa, elska Ísland og íslenska frelsið og okkur þykir að sjálfsögðu mikilvægt að þau þekki Ísland og fjölskylduna sína vel, sem þau svo sannarlega gera.“

Mikið vatn runnið til sjávar

Olifa-vörurnar hafa notið mikilla vinsælda og aðspurð um ástæður velgengninnar segir Ása: „Ég ætla að segja að það sé fyrst og fremst vegna gæða varanna. Okkar viðskiptavinir hafa svo hjálpað okkur að breiða út boðskapinn og þannig smátt og smátt höfum við vaxið náttúrulega,“ segir hún, minnug þess þegar hún velti vöngum fyrir margt löngu um hvað hún gæti tekið sér fyrir hendur meðan eiginmaðurin spilaði fótbolta. Síðan þá er mikið vatn runnið til sjávar og Olifa orðið gríðarstórt vörumerki sem vex – á hárréttum hraða – undir vökulu auga Ásu, sem passar upp á að allt sé eins og það á að vera.

Áleggið sett á eftir kúnstarinnar reglum. Pítsurnar eru einstaklega saðsamar …
Áleggið sett á eftir kúnstarinnar reglum. Pítsurnar eru einstaklega saðsamar en þó léttar í maga. Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert