Áhaldið sem flestir gleyma að þrífa

Sum áhöld þrífum við reglulega eins og vera ber. Önnur eru notuð sjaldnar og eru þess eðlis að maður hreinlega gleymir að þrífa þau reglulega með tilheyrandi skítsöfnun og heilsufarsógn.

Umrætt áhald er dósaopnari og nú súpa eflaust margir hveljur og rifja upp hvenær þeir þrifu sinn síðast ... og í ansi mörgum tilfellum er svarið: Aldrei.

En það er auðveldara en margur heldur að þrífa dósaopnara og hér eru einfaldar leiðbeiningar.

Þú þarft:

  • Skítugan dósaopnara
  • Nokkuð góða krukku
  • Hvítt edik
  • Gamlan tannbursta
  • Uppþvottalög
  • Viskustykki/handklæði

Aðferð:

Leggðu í bleyti. Settu dósaopnarann í krukku og passaðu að opnarinn sjálfur snúi niður. Settu síðan nóg af ediki til að ná yfir verkfærahluta opnarans. Vissulega er hægt að nota skál til verksins en rétta stærðin af krukku kemur í veg fyrir að nota þurfi of mikið edik.

Láttu liggja. Reyndu að láta opnarann liggja sem lengst í edikinu. Hér er átt við fjölda mínútna, mögulega klukkustundir ef opnarinn er illa farinn. Eftir smá stund ættirðu að sjá loftbólur myndast utan á opnaranum og mögulega ætti eitthvað að byrja að losna af.

Skrúbbaðu. Farðu með krukkuna að vaskinum og taktu opnarann upp úr, dýfðu gamla tannburstanum í edikið og burstaðu dósaopnarann vel og vanlega. Þegar tannburstinn er orðinn brúnn skaltu dýfa honum aftur ofan í edikblönduna. Endurtaktu þar til opnarinn er orðinn fínn.

Bættu sápu við. Nú skaltu setja smá uppþvottalög á tannburstann.

Skrúbbaðu aftur. Nú skal skrúbba vel og vandlega með sápunni. Þetta getur reynst vel, sérstaklega ef það þarf að ná burt gamalli fitu sem uppþvottalögurinn vinnur vel á.

Skola og hreinsa. Mikilvægt er að skola og þurrka dósaopnarann vel og vandlega svo hann ryðgi ekki. Í raun er mjög einfalt að halda dósaopnaranum í toppstandi en þá auðvitað skiptir máli að skola hann eftir notkun og þurrka vel.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert