Hætta á toppnum eftir 43 ára rekstur

Feðgarnir Ragnar Guðmundsson og Guðmundur Ragnarsson á veitingastaðnum Lauga-ás.
Feðgarnir Ragnar Guðmundsson og Guðmundur Ragnarsson á veitingastaðnum Lauga-ás. mbl.is/Hari

„Pabbi varð áttræður 1. september síðastliðinn og finnst það fín tímamót til að hætta. Hann hefði getað hætt fyrir 15 árum en hann hefur elskað þennan rekstur og ekki verið tilbúinn til þess fyrr en nú,“ segir Guðmundur Ragnarsson veitingamaður á Lauga-ási. Í gær spurðist það út að þessum rótgróna veitingastað verði lokað fyrir jól. Ragnar Guðmundsson, faðir Guðmundar, opnaði staðinn við Laugarásveg í Reykjavík ásamt Gunnlaugi Hreiðarssyni í júní árið 1979 og hefur staðið vaktina með fjölskyldu sinni síðan.

Lauga-ás er með elstu veitingastöðum landsins og hefur verið rómað fyrir sígildan heimilismat og innréttingar og útlit sem hefur fengið að halda sér frá fyrsta degi. Brátt þurfa þó fastagestir að leita annað til að fá frægt fiskigratín staðarins og aðrir veitingastaðir geta nú keppst við að gera bestu béarnaise-sósuna í bænum.

Lauga-ás hefur haldið vinsældum sínum og reksturinn skilaði 30 milljóna hagnaði í fyrra. Það er því ekki verið að yfirgefa sökkvandi skip. Því skal siglt mynduglega í höfn. „Það er ágætt að hætta á toppnum. Pabbi hefur rekið þetta með góðum hagnaði og borgað sína skatta og alla reikninga,“ segir Guðmundur, sem sjálfur rekur meðal annars veisluþjónustu og er í öðrum veitingarekstri.

Spurður hvað verði um innréttingar staðarins og rauðköflóttu gardínurnar frægu, sem Bára Sigurðardóttir móðir Guðmundar hefur saumað, segir veitingamaðurinn að það sé óráðið. „Þetta fer sjálfsagt á einn stað en ég sagði nú reyndar við pabba að það væri kannski ráð að bjóða upp stólana og gardínurnar og gefa ágóðann til góðs málefnis. Það væru eflaust margir sem vildu eiga minjagrip um Lauga-ás.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert