Nýjungar frá 17 Sortum í Hagkaup

„Hugmyndin af Sörugerðarsettunum kom í framhaldi af samtölum okkar við viðskiptavini sem töluðu um að vilja taka þátt í stemningunni og jólafílingnum sem fylgdi sörugerð en treystu sér ekki í baksturinn - enda er það að sönnu pínu flókið að baka sörur og gera kremið. Við komum því með þessa lausn að útbúa Sörugerðarsett sem inniheldur bakaða sörubotna, tilbúið krem og súkkulaði til að bræða og þá geta t.d fjölskyldur og vinahópar skemmt sér eina kvöldstund á aðventunni við að smyrja kreminu á botnana og húða með súkkulaðinu,“ segja Auður Ögn og Sylvía Haukdal eigendur 17 Sorta.

17 Sortir opnuðu glæsilega kökubúð í Hagkaup Smáralind fyrir stuttu og viðtökurnar hafa verið framar vonum að sögn þeirra Auðar og Sylvíu en einnig er hægt að kaupa kökur og sörgerðarsettin í verslunum Hagkaups í Kringlu og Skeifunni.

Þær stöllur fóru að eigin sögn rólega af stað en eru sífellt að bæta við sig nýjungum. Ein þeirra eru kleinuhringir eða lúxus kleinuhringir eins og þær kalla þá.

„Hugmyndin af kleinuhringjunum var að gera þá meira að eftirréti. Við eigum flest „guilty pleasure og hjá okkur er það til dæmis djúsí amerískur kleinuhringur. Okkur langaði að gera hann meiri aðlaðandi fyrir fullorðna og prófuðum nokkrar bragðtegundir sem við elskum sem eru meðal annars pistasíu og passion. Þetta sló svona líka í gegn enda alveg sjúklega gott og fullkomin eftirréttur eða til að gera vel við sig. Bragðtegundirnar sem við erum með eru pistasíumousse, hindberjamousse, þristamousse og passion curd með ítölskum marengs og eru hver öðrum betri. Klárlega eitthvað sem allir ættu að smakka.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert