Íslenska kokkalandsliðið krækti sér í gullverðlaun á heimsmeistaramótinu í matreiðslu sem fer fram í Lúxemborg um þessar mundir. Íslenska liðið keppti í fyrri keppnisgrein sinni af tveimur í gær, en greinin heitir „restaurant of nations“.
Þar er eldaður þriggja rétta matseðill fyrir 110 gesti.
Liðið keppir næst á þriðjudag þegar keppt er í þrettán rétta „fine-dining máltíð fyrir tólf manns, en sú keppnisgrein ber nafnið „Chef's Table“.
Þórir Erlingsson forseti klúbbs matreiðslumeistara er að vonum ánægður. „Að koma frá litlu landi er styrkleikinn okkar. Við þekkjumst öll og getum unnið mikið saman. Liðið sem heild hefur færi á að hittast oft og æfa sem er erfiðara og kostnaðarsamara hjá stóru löndunum.”
Hann bætir líka við að samstarf norrænu landsliðana og norræna klúbba sé gott og þar liggi líka styrkur. Norrænu löndin er fremst meðal þjóða í þessu fagi. „Fólk er ekki feimið við að deila sinni reynslu öðrum til góða og það er talað um það hér hjá öðrum löndum hvað það sé að skila miklum árangri,“ bætir hann við.
Það er klúbbur matreiðslumeistara sem rekur íslenska kokkalandsliðið. Keppnismatreiðsla er í rauninni frádráttarkeppni og er fyrirkomulagið þannig að það byrja allir með 100 stig sem lækkar síðan með tilliti til fagmennsku, útlits rétta, snyrtimennsku og bragðs. Gullframmistaða er yfir 90 stig, silfurframmistaða milli 80 og 90 stig og brons milli 70 og 80 stig. Á mótinu í ár eru um 20 lönd sem taka þátt. Úrslit verða svo kynnt Lúxemborg á fimmtudaginn og liðið kemur svo heim á föstudag.