Svona losnar þú við rauðvínsbletti

mbl.is/Shutterstock

Það er dásamlegt að fá sér eitt rauðvínsglas, en það er minna spennandi að þurfa að þrífa ef eitthvað hellist niður. Það mun að öllum líkindum gerast á bestu bæjum í desembermánuði. 

Rauðvín í fatnað
Því fyrr sem þú meðhöndlar blettinn, því betra. Ef þú liggur með sódavatn við höndina skaltu nota það á blettinn – en alls ekki aðra kolsýrða drykki þar sem sykurinn mun ekki gera neitt fyrir blettinn. Helltu bara nægilega miklu magni af sódavatni á blettinn svo vínið nái ekki að þorna inn í efnið og notaðu eldhúspappír til að þurrka upp mestu bleytuna. Notaðu því næst hreinan klút til að þurrka restina. Ef eitthvað situr eftir af blettinum er þér óhætt að setja smáveigis af glýseról og láta standa í 7 — 8 tíma. Best er að ná þessum aðgerðum innan við 2 mínútum frá því að rauðvínið hellist niður, og ef ekkert sódavatn er til á heimilinu má einnig notast við borðsalt.

Ef þú hefur ekki tök á að stökkva í þessar aðgerðir á staðnum skaltu setja flíkina í plastpoka til að sporna við því að bletturinn þorni. Og þegar þú hefur náð að losa um blettinn skaltu setja flíkina í þvott.

Rauðvín á gólfteppið
Í þessu tilviki getur þú gripið í kalt vatn og svamp og „dúmpað“ með svampinum á gólfteppið – bara ekki nudda blettinn. Það má einnig leggja handklæði yfir blettinn og eitthvað þungt ofan á, og láta standa yfir nótt.

Eins getur þú blandað 1 dl af uppþvottalegi saman við volgt vatn og leyft froðunni að koma sem þú smyrð á blettinn. Því næst lagt eldhúspappír á blettinn til að draga í sig rakann.

Rauðvín á borðið
Ef  rauðvín hefur legið í lengri tíma á borðstofuborðinu er þér óhætt að nota glýseról. Helltu efninu á blettinn og leggðu því næst hreinan klút ofan á. Settu plastfilmu yfir og láttu standa í 12 tíma.

Öll ofangreind ráð fara að sjálfsögðu eftir því hvaða efni á í hlut í fatnaði og húsgögnum.

mbl.is