Smákökur og hollusta í bland

Heilsukokkurinn Kristjana Steingrímsdóttir mælir með að hafa eitthvað hollt á …
Heilsukokkurinn Kristjana Steingrímsdóttir mælir með að hafa eitthvað hollt á borðum á aðventunni, þó að þar megi alveg líka vera smákökur. mbl.is/Ásdís

​Gott er að koma inn úr kuldanum á hlýlegt heimili Kristjönu Steingrímsdóttur heilsukokks. Jana, eins og hún er kölluð, ber fram rjúkandi heitt jurtate og þá er okkur ekkert að vanbúnaði að hefja spjallið. Kristjana er nýlega flutt heim frá Lúxemborg þar sem hún bjó ásamt manni sínum Sigþóri Júlíussyni og þremur dætrum þeirra. Þar vann hún sem yfirkokkur ásamt því að vera meðeigandi á Happ, en staðurinn sérhæfir sig í hollum morgunmat, hádegismat og eftirréttum.

Elskar litríkan mat

Eftir fimmtán ár erlendis er Jana nú komin heim og segist vera að þreifa sig áfram á heilsumarkaðnum hér en hún er einnig lærður jógakennari.

„Ég hef áhuga á fólki og heilsu og hvað hægt er að gera með mataræði. Ég er byrjuð að pósta réttunum mínum á Instagram en ég er mikið fyrir að hafa allt sem einfaldast,“ segir Jana, en hana má finna á Instagram undir nafninu janast.

Jönu er mikið í mun að fólk borði góðan og hollan mat, án þess að kvelja sjálft sig með endalausum reglum.

Kristjana gefur lesendum Sunnudagsblaðins góða uppskrift af graskeri sem hentar …
Kristjana gefur lesendum Sunnudagsblaðins góða uppskrift af graskeri sem hentar vel sem meðlæti eða eitt og sér. Ljósmynd/Gabriela Maria Kaziuk

„Ég vil ekki hafa boð og bönn heldur frekar bjóða upp á alls konar holla rétti með öðru þannig að mögulega borðar fólk þá meira af því holla og minna af því óholla. Ég er sjálf alæta og elska góðan og litríkan mat. Langoftast sér maðurinn minn um að matreiða kjötið og fiskinn en ég sé um grænmetið og allt meðlæti. Við borðum alltaf saman fjölskyldan og oft eldum við öll saman. Mér finnst svo gaman að vinna með liti og elska að hafa matinn litríkan,“ segir hún og segist nota mikið döðlur, ber, ávexti, hnetur og fræ í salötin sín svo eitthvað sé nefnt.

„Matur verður að vera fallegur.“

Kanilepli út í salat

Nú þegar jólin nálgast eiga margir það til að detta í óhollustu en Jana kann ráð við því.

„Ég er alveg með smákökur á borðum en passa að hafa líka hollmeti á boðstólum. Þannig getur maður fengið sér smá hollt og þá er auðveldara að fá sér bara smá af smákökunum,“ segir Jana og segir einnig hægt að baka smákökur sem eru næringarríkar og ljúffengar í senn. 

Þessar smákökur eru ljúffengar og þó þær séu kannski ekki …
Þessar smákökur eru ljúffengar og þó þær séu kannski ekki lausar við hitaeiningar, eru þær stútfullar af hollri næringu. Ljósmynd/Jana

„Ég nota til dæmis mikið hnetur og möndlur, dökkt súkkulaði, kókos og sesamfræ,“ segir hún og sýnir blaðamanni uppskriftir í bók sinni Healthy & Pure. Bókin er stútfull af uppskriftum að hollum súpum, drykkjum, salötum, grænmetisréttum, kökum og eftirréttum.

„Ég bakaði risaskammt af sesam­hátíðarsmákökum um helgina og þær kláruðust alveg um leið. Og þótt það sé hlynsíróp í þeim þá eru líka í þeim góðar fitusýrur og trefjar,“ segir Jana og segist meira að segja finna leiðir til að gera salöt svolítið jólaleg.

„Nú fyrir jólin er ég að baka epli í ofni með kanil og setja út í salöt,“ segir hún og blaðamaður hváir.

„Já, ég er alltaf að prófa eitthvað óvenjulegt og fólk er oft hissa,“ segir hún og hlær.

„En þetta er rosa gott!“

Ítarlegt viðtal er við Kristjönu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina, ásamt fjórum girnilegum uppskriftum. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert