Dýrindis danskar mokkakökur

Ljósmynd/Valgerður Gréta Gröndal

Þessar kökur eru eiginlega þess eðlis að þið verðið að prófa þær! Það er engin önnur en Valgerður Gréta Gröndal eða Valla á GRGS.is sem á heiðurinn að þeim.

„Grunnurinn af þessum dásamlegu kökum er uppskrift af klassískum dönskum smjörkökum sem mörg okkar þekkja í ljósri útgáfu. Þessi útgáfa er jafn silkimjúk en með dásamlegu mokkabragði, þar sem kakóið frá Nóa Síríus og kaffi leika aðalhlutverkið. Ég dýfi þeim svo í hvítt súkkulaði en það er einnig himneskt að nota rjómasúkkulaði eða jafnvel Karamellu Doré súkkulaði. Ristaðar heslihneturnar gefa kökunum svo sérlega gott bragð og úr verður himnesk blanda,“ segir Valla.

Danskar mokkakökur með ljósu súkkulaði og söxuðum heslihnetum

  • 175 g mjúkt smjör
  • 80 g flórsykur
  • 200 g hveiti
  • 4 tsk. instant kaffiduft
  • 25 g kakóduft frá Síríus sælkerabakstri
  • ¼ tsk. salt
  • 1 stór eggjahvíta
  • 1 tsk. vanilludropar
  • 150 g hvítir súkkulaðidropar, rjómasúkkulaði eða Karamellu Doré súkkulaði frá Nóa Síríus
  • 50 g ristaðar heslihnetur, saxaðar

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 175°C og setjið bökunarpappír á tvær bökunarplötur. Setjið stóran stjörnustút í sprautupoka, ég notaði 1M frá Wilton.
  2. Sigtið hveitið og kakóið og myljið kaffiduftið saman við. Setjið til hliðar.
  3. Setjið smjörið í skál og þeytið þar til það er orðið silkimjúkt. Setjið flórsykurinn saman við og hrærið þangað til þetta er rétt samblandað en varist að þeyta blönduna, þá renna kökurnar frekar út og missa formið.
  4. Bætið eggjahvítunni, salti og vanilludropum saman við. Hrærið þar til deigið er samlagað en stoppið þá. Setjið deigið í sprautupokann, athugið að deigið er mjög stíft en þannig á það að vera.
  5. Sprautið kökum á bökunarpappírinn, bakið í 10-12 mín.
  6. Takið kökurnar út og kælið alveg á grind. Á meðan kökurnar kólna er gott að rista heslihneturnar. Setjið þær á bökunarplötu og ristið í ofninum við 175°C. Eftir u.þ.b. 10 mín. er gott að taka þær út. Setja þær beint á viskastykki og nuddið skurninni af. Kælið.
  7. Þegar kökurnar eru orðnar alveg kaldar bræðið þá súkkulaðið yfir vatnsbaði. Dýfið hverri köku langsum í súkkulaðið og stráið strax ristuðum heslihnetum yfir.
Ljósmynd/Valgerður Gréta Gröndal
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert