Hreinlætisráðin sem svínvirka

mbl.is/Est Living

Hér koma nokkur atriði sem vert er að hafa í huga í hinni daglegu rútínu sem flest okkar erum að sinna. Það er algjör óþarfi að standa yfir skítugum speglum og mæðast, þegar við getum tamið okkur nokkra einfalda siði sem ættu að létta á álaginu.

Minnkaðu draslið: Vertu gagnrýninn á rýmin heima hjá þér og taktu í burt hluti sem eru ekki að gera neitt fyrir þig né rýmið. Það auðveldar líka allt við þrifin.

Þrífðu eldhúsið jafnóðum og þú notar það: Renndu aðeins augunum yfir eldhúsið og tékkaðu hvort þú sért nokkuð með eldhústæki uppi á borði sem þú notar kannski tvisvar á ári. Reyndu þá að koma þeim græjum fyrir annars staðar. Og þegar þú eldar er góð regla að ganga frá eftir sig jafnóðum þannig að eldhúsið sé ekki á hvolfi þegar maturinn er tilbúinn.

Tuska og úðabrúsi alltaf til taks: Það er ágætisregla að geyma tusku og úðabrúsa inni á baði. Þannig getur þú auðveldlega gripið í tuskuna og þurrkað af ef þess er þörf  því við eigum það til að mikla það fyrir okkur að sækja áhöldin sem þarf í verkið og sleppa því frekar. Og áður en við vitum af er allt húsið orðið skítugt upp fyrir haus.

Ryksuguróbot: Fjárfestu í ryksuguróbot og þá helst einum sem ryksugar og moppar í leiðinni. Þannig heldur þú rykhnoðrunum í fjarlægð á meðan þú ert ekki heima.

Gakktu frá jafnóðum: Eru óhreinir sokkar á gólfinu? – Taktu þá með þér inn í þvottahús. Flokkaðu ruslpóst beint úr póstkassanum yfir í tunnuna. Og óhreinir diskar fara beint inn í eldhús eftir matinn. Það verður allt svo mikið auðveldara ef við göngum frá jafnóðum.

Minnkaðu álagið: Einn og sami aðilinn á heimilinu á ekki að sjá alfarið um alla þessa hluti. Það er alveg sjálfsagt að óska eftir aðstoð eða virkja aðra í fjölskyldunni með í húsreglurnar þannig að álagið dreifist á fleiri aðila. Það eru eflaust flestir sammála um það að þeim líði betur í snyrtilegu og hreinu umhverfi. Margar hendur vinna létt verk!

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert