Spennandi tímar fram undan

Jón Arnar og Kristján Nói standa vaktina á veitingastaðnum Grazie …
Jón Arnar og Kristján Nói standa vaktina á veitingastaðnum Grazie Trattoria á Hverfisgötu. Ásdís Ásgeirsdóttir

Á veitingastaðnum Grazie Trattoria á Hverfisgötunni er mikil jólastemning þessa dagana og boðið upp á jólamatseðil að ítölskum hætti þar sem ítalskur sælkeramatur er í sínum besta búningi.

Það er veitingamaðurinn Jón Arnar Magnússon sem er maðurinn á bak við Grazie en hann segir að Íslendingar hafi sýnt ítalska jólamatseðlinum mikinn áhuga, sem sé sannarlega gleðiefni. Eftir miklu sé að slægjast því boðið er upp á sérinnflutt hráefni og spennandi rétti sem enginn unnandi ítalskrar matargerðar megi láta framhjá sér fara.

Íslendingar spenntir fyrir pítsuskólanum

„Svo hefur mikill áhugi verið á pítsuskólanum okkar sem fer af stað núna í janúar. Þar ætlum við að fá ítalskan snilling til að kenna hvernig á að baka ekta ítalskar Napólí-pítsur,“ segir Jón Arnar en mikil eftirspurn hefur verið eftir skólanum. „Fyrirmyndin er pítsuskóli í Napólí á Ítalíu en þar skipar tónlistin stóran sess. Nemendum eru kennd alls kyns brögð eins og að henda pítsudeiginu upp í loftið, laga ekta ítalska pítsusósu, hvernig á að baka pítsuna og svo auðvitað hvaða áleggstegundir eru vinsælastar á Ítalíu og hvernig þær passa saman.“

Opnar litla sælkeraverslun

„Samhliða þessu munum við opna sælkerabúð hér á Grazie Trattoria. Þar munum við meðal annars bjóða upp á pítsudeigin, okkar vinsælu pítsusósu, alvöru sérinnflutt ítalskt álegg, pastasósur, pasta, olíur og fleiri sælkeravörur frá Ítalíu,“ segir Jón Arnar en verslunin verður opnuð á næstu dögum og verður sannkallaður hvalreki fyrir unnendur góðra pítsa. Hugsunin er að þetta sé nokkurs konar take-away-verslun þar sem hægt er að skjótast inn og ná sér í allt sem þarf í kvöldmatinn. Jón Arnar segist virkilega spenntur fyrir þessari nýjung en fyrirkomulag eins og þetta þekkist víða erlendis.

Meistari Kristján mætir á svæðið

Jón Arnar segir að það sé engin ástæða til að leggjast í kör í janúar enda boðar nýtt ár nýja tíma. Í þessu tilfelli er það enginn annar stórsöngvarinn Kristján Jóhannsson. „Til þess að okkur leiðist nú ekki í janúar höfum við náð samkomulagi við Kristján Jóhannsson, okkar ástsæla óperusöngvara. Við munum bjóða upp á fimm rétta matseðil með uppáhaldsréttunum hans Kristjáns frá Ítalíu. Kristján mun kynna hvern rétt fyrir sig ásamt því að taka aríur á milli rétta ásamt hinum eina sanna Þóri Baldurssyni píanóleikara,“ segir Jón en miðvikudagskvöldin verða helguð Kristjáni og segir Jón Arnar að það sé á dagskránni að bjóða upp á skemmtilega viðburði á miðvikudagskvöldum framvegis.

„Þetta verður hrikalega skemmtilegt og ég veit að Kristján á eftir að heilla matargesti upp úr skónum,“ segir Jón Arnar að lokum en allar borðapantanir fyrir Grazie Trattoria fara fram í gegnum dineout.is.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert