Bismark-skortur á landinu

mbl.is/Colourbox

Þau válegu tíðindi bárust úr verslunum landsins í dag að bismark-brjóstsykurinn frægi væri hvergi fáanlegur og fóru blaðamenn matarvefsins samstundis á stúfana enda einungis fimm dagar til jóla og töluvert af jólagóðgæti sem á enn eftir að baka.

Í samtali við matarvefinn staðfesti Alda Björk Larsen, markaðsstjóri Nóa Síríus, að skortur væri á bismark-bjóstsykri en það ætti sér skýringar.

Bannað að nota litarefnið

„Því miður voru sett ný lög og nú er bannað að nota hvítt litarefni sem olli því að við náðum ekki að finna lausn fyrir þessi jól að gera brjóstsykurinn fallega rauðan og hvítan,“ segir Alda þannig að þeir sem finna Bismark í búðum núna eru einstaklega heppnir og ættu að birgja sig upp því heimildir herma að þeir séu seldir dýru verði á sölusíðum.

„Nóa Bismark-brjóstsykurinn er má segja hluti af jólahefðum okkar og því virkilega leiðinlegt að geta ekki boðið upp á hann, við mælum með að kaupa Síríus rjómasúkkulaði með Bismark-kurli í en það er bæði frábært í uppskriftir og til að njóta. Við vonumst þó til að geta bætt úr því fyrir næstu jól og komið með Bismark-brjóstsykur á ný.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert