Marengsjólatré með hindberjasósu og rjóma

Glæsilegt marengs jólatré með vanillurjóma og ferskum berjum.
Glæsilegt marengs jólatré með vanillurjóma og ferskum berjum. mbl.is/Mynd samsett

Marengstertur eiga fullt erindi á jólaborðið og hægt er að útfæra þær á marga vegu  til dæmis eins og jólatré sem þetta. Þetta glæsta tré er með vanillurjóma, hindberjasósu og ferskum berjum sem gefa einstakt bragð, en uppskriftin kemur frá Völlu á GRGS

Marengsjólatré með með hindberjasósu og rjóma 

Marengsbotnar

  • 5-6 eggjahvítur við stofuhita (170 ml)
  • 250 g sykur
  • 2,5 tsk. maizenamjöl
  • 1 1/4 tsk. borðedik
  • 1/2 tsk. möndludropar
  • Skraut: fersk jarðarber, hindber, flórsykur og fíngert greni

Hindberjasósa

  • 200 g frosin hindber
  • 70 g frosin jarðarber
  • 2 msk. sykur
  • Setjið ber í pott ásamt sykri og sjóðið í 5-8 mínútur. Stappið berin að mestu með gaffli á meðan þau sjóða. Maukið þau með töfrasprota og kælið alveg. 

Vanillurjómi

  • 400 ml rjómi rjómi 
  • 3 tsk. vanillusykur
  • Þeytið saman þar til rjóminn verður nánast stífþeyttur. 

Aðferð:

  1. Byrjið á því að aðskilja eggin. Best er að gera eitt egg í einu og setja eina hvítu í einu í hrærivélarskál. Það er sérlega leiðinlegt að fá örðu af eggjarauðu út í allar hvíturnar ef það skyldi gerast.
  2. Setjið sykurinn í matvinnsluvél og leyfið henni að vinna í smástund, það er best ef sykurinn er orðinn vel fínn.
  3. Byrjið á því að þeyta eggjahvíturnar, þeytið í ca 2 mín. og byrjið þá að setja sykurinn út í í smáskömmtum, 1 msk í einu. Þegar allur sykurinn er kominn út í, þeytið þá áfram þar til allur sykurinn er uppleystur. Setjið þá maizenamjöl og edik saman við og þeytið í smástund þar til allt er samlagað.
  4. Teiknið 7 hringi á bökunarplötu. Þvermálið þarf að vera: 15 cm, 12 cm, 10 cm, 8,5 cm, 6,5 cm, 5 cm og 4 cm. Það er í fínu lagi þótt málin séu ekki nákvæmlega svona, 1 cm til eða frá skiptir engu.
  5. Setjið marengsinn í sprautupoka og sprautið hringina fallega á plötuna. Ef það verður afgangur af marengsinum, sprautið honum þá bara í það mynstur eða toppa sem ykkur hugnast og geymið til að nota í marengsskál eða skreyta bakkann með. Bakið við 120°C blástur í 1 klst, látið kólna í ofninum, helst yfir nótt.

Samsetning

  1. Þegar setja á tréð saman er best að gera það bara rétt áður en á að bera það fram. Hafið öll hráefni við höndina þegar þið byrjið.
  2. Þeytið rjómann með vanillusykrinum og skolið og skerið jarðarber í frekar stóra bita.
  3. Takið fram fallegan kökudisk eða bakka og setjið smá rjómaslettu á hann miðjan og setjið stærsta marengsinn á hann. Smyrjið lagi af rjóma á botninn og setjið söxuð jarðarber og nokkur hindber á rjómann, toppið með hindberjasósu og setjið að síðustu örlítinn rjóma þar yfir.
  4. Takið fram grillpinna og stingið honum í miðjan botninn með oddhvassa endann upp. Rennið þá næstu stærð af marengs fyrir neðan á prjóninn, passið að prjóninn fari í miðjan botninn, endurtakið þetta þar til toppurinn er settur efst.
  5. Skreytið hliðarnar og bakkann með ferskum berjum, setjið einhverja sæta stjörnu á toppinn og dustið yfir með flórsykri.
  6. Það gæti vafist fyrir einhverjum hvernig skera á tréð. Langbest er bara að skera í það að ofanverðu og nota skeið á móti. Þetta fer mjög fljótlega í stóra gúmmelaðiklessu á bakkanum og er þá borið fram eins og Eton mess-marengsskál.
mbl.is/GRGS
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert