Hversu lengi endist vínflaska eftir að hún er opnuð?

Margir bregða á það ráð að draga verulega úr neyslu áfengis í janúar og því freistast margir til að opna flösku en ætla að láta hana endast. En hversu lengi er vínið í lagi eftir að flaskan hefur verið opnuð?

Í grein í Popsugar greinir vínsérfræðingurinn Collin Lilly frá því að þegar flaska er opnuð kemst ferskt súrefni að víninu sem hafi umsvifalaust áhrif á bragðið. Því sé best að drekka flöskuna sama kvöld.

Þetta þýðir þá væntanlega að sólarhring síðar hefur bragðið tekið miklum breytingum til hins verra þannig að allar hugmyndir um að láta flöskuna „endast“ eru feigðarflan og miklu frekar skyldi fjárfesta í góðri „belju“.

Ef þið sitjið uppi með opna flösku sem þið vitið ekki hvað þið eigið að gera við er upplagt að setja vínið í klakabox og frysta. Þá getið þið auðveldlega nýtt vínið í sósur og aðra matargerð þegar þess þarf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert