Vill að fólk hætti að koma með kökur í vinnuna

„Ef enginn kæmi með köku á skrifstofuna þá myndi ég …
„Ef enginn kæmi með köku á skrifstofuna þá myndi ég ekki borða kökur á daginn en af því að fólk kemur með kökur þá borða ég þær,“ segir prófessorinn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Susan Jebb, prófessor við Oxford háskóla, telur réttast að starfsfólk láti af þeim sið að koma með kökur og önnur sætindi á vinnustaði við minnsta tilefni og þar með freista samstarfsfélaga sinna.

Hún líkir siðnum við óbeinar reykingar þar sem fólk hlýtur skaða af ákvörðunum annarra sem stuðla að óheilbrigðu líferni. 

Times greinir frá.

Teljum okkur skynsöm

Að koma með kökur eða annars konar bakkelsi tíðkast gjarnan á vinnustöðum við ýmis tilefni, til að mynda þegar að starfsmaður á afmæli eða starfslokum er fagnað.  

Jebb, sem er prófessor við Oxford háskóla og sérhæfir sig í mataræðis- og lýðheilsurannsóknum, virðist þó lítt hrifin af þessum sið sem hún telur að ógni heilsu almennings.

„Við teljum okkur öll vera skynsamt, klárt og menntað fólk sem tekur upplýstar ákvarðanir en við eigum það til að vanmeta áhrif umhverfisins,“ segir Jebb. 

„Ef enginn kæmi með köku á skrifstofuna þá myndi ég ekki borða kökur á daginn en af því að fólk kemur með kökur þá borða ég þær.“

Ekki nóg að reiða sig á viljastyrk fólks

Hún segir samfélagið sífellt vera að ota matvælum að fólki og telur að ekki sé nóg að reiða sig á viljastyrk almennings til að koma í veg fyrir ofát. 

Jebb viðurkennir að óbeinar reykingar og að færa samstarfsfólki kökur séu vissulega ekki sami hluturinn en færir þó rök fyrir því að báðir siðir séu skaðlegir fyrir heilsu fólks.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert