30 ára biðlisti eftir vinsælustu krókettum heims

Shigeru Nitta
Shigeru Nitta Ljósmynd/Asahya

Ef þú pantar kassa af frosnum Kobe krókettum frá kjötversluninni Asahya í Japan er eins gott að þér liggi ekki á því biðtíminn er hvorki meira né minna en 30 ár.

Þetta hljómar galið en er dagsatt. Kobe króketturnar eru gríðarlega vinsælar en hægt er að fá einfaldari gerð af þeim þar sem biðtíminn er einungis fjögur ár.
Asahya fjölskyldurekin kjötverslun og þegar Shigeru Nitta tók við af föður sínum árið 1994 hafði hann þegar nokkra reynslu af netsölu. Hins vegar reyndust viðskiptavinir hikandi við að greiða háar fjárhæðir fyrir kjöt á netinu.

Hann tók því djarfa ákvörðun árið 1999. Hann verðlagði Kobe króketturnar á 1.8 dollara stykkið þrátt fyrir að kjötið í þær kostaði 2.7 dollara stykkið. Markmiðið var að kynna verslunina með þessum hætti og treysta á að í framhaldinu myndu viðskiptavinir kaupa dýrari vöru næst. Til að lágmarka krókettu tapið var ákveðið að selja einungis 200 krókettur á viku.

Króketturnar eru framleiddar daglega án nokkurra viðbættra efna og þykja algjört sælgæti. Smám saman fór uppátækið að vekja athygli viðskiptavina og fjölmiðla og þegar grein birtist í fréttamiðli rétt upp úr aldamótum, varð allt vitlaust.

Nitta tók króketturnar úr sölu árið 2016 þar sem biðlistinn var kominn upp í 14 ár. Hins vegar voru þær aftur settar í sölu vegna fjölda áskoranna.

Þær voru því settar aftur í sölu árið 2017 en þá var verðið hækkað upp í 3.7 dali sem helgaðist, að sögn Nitta, fyrst og fremst af hækkandi hráefnisverði. Einnig var framleiðslan aukin upp í 200 krókettur á dag. Skorað hefur verið á Nitta að auka framleiðsluna enn meira en hann minnir góðfúslega á að hann sé að tapa peningum á uppátækinu og því væri það frekar slæm hugmynd. Það góða sé þó að um það bil helmingur þeirra sem kaupi króketturnar kaupi einnig kobe kjöt sem er nákvæmlega það sem lagt var upp með.

Heimild: CNN


Ljósmynd/Asahya
mbl.is