„Hún mun seint njóta almennra vinsælda“

Jóhannes Ásbjörnsson, einn eigenda Shake&Pizza.
Jóhannes Ásbjörnsson, einn eigenda Shake&Pizza. Eggert Jóhannesson

Shake&Pizza, hinn rómaði veitingastaður í Keiluhöllinni í Egilshöll, er þekktur fyrir að fara ótroðnar slóðir þegar kemur að pítsum og sjeikum. „Hugmyndafræði Shake&Pizza er að vera sífellt að prófa nýjar samsetningar, para saman álegg sem fáum myndi detta í hug að para saman og leyfa okkur að hugsa út fyrir kassann, í þetta skipti tókum við þessa tilraunastarfsemi á nýtt plan,” segir Jóhannes Ásbjörnsson, einn eigenda Shake&Pizza.

Það eru orð að sönnu því að nú hefur ný þorrapítsa litið dagsins ljós eftir þrotlausar tilraunir. Þorrapítsan er byggð á grunni Beikonsultupítsunnar, vinsælustu pítsunnar á Shake&Pizza, sem var jafnframt valin fjórða besta pítsa í heimi á Pizza Expo í Las Vegas um árið.

Skiptast í tvær fylkingar

„Markmiðið var að sjálfsögðu að búa til ljúffenga þorrapítsu en það má eiginlega segja að það hafi ekki alveg tekist. Vissulega mun einhverjum finnast hún ljúffeng, en hún mun seint njóta almennra vinsælda,” bætir Jóhannes við. 

Þorrapítsan er líkt og beikonsultupítsan með beikonsultu í stað pizzasósu. Áleggin eru svo þekktir leikmenn úr þorraheiminum, sviðasulta, grænar baunir, saltkjöt og laufabrauð. Herlegheitin eru svo toppuð með hvítlaukssósu.

„Þegar við smökkuðum hana skiptist starfsfólkið okkar alveg í tvær fylkingar. Sumir elskuðu bragðið á meðan aðrir munu örugglega ekki smakka hana aftur. Þar varð brandarinn til, að þorraútgáfan af fjórðu bestu pizzu í heimi væri hugsanlega mögulega kannski sú fjórða versta í heimi,” bætir Jóhannes hlæjandi við.

Nú er ekki annað hægt en að hvetja alla pítsuáhugamenn að mæta á Shake&Pizza á þorranum og smakka og fella eigin dóm um afurðina. 

mbl.is