Koma göt í fötin eftir þvott?

Góð þvottavél er gulli betri.
Góð þvottavél er gulli betri. mbl.is/

Það er þreytandi að fara í hreinan bol og taka eftir litlum götum sem ekki voru sjáanleg áður en flíkin fór í þvott og við skiljum hvorki upp né niður hvar eða hvernig þau urðu til.

Nokkrar ástæður geta verið fyrir þessu vandamáli sem við höfum tekið saman hér fyrir neðan og vert er að skoða aðeins nánar.

Fyrst af öllu er mjög líklegt að við séum troða of miklu í vélina í einu. Allt til að nýta vélina sem best hverju sinni. Það fer ekki bara illa með fötin, heldur líka tromluna og mótorinn í vélinni. Fötin geta fest á milli tromlunnar og hurðarinnar og hamast þar föst í gúmmíhringnum.

Við þvoum oftar en ekki á vitlausu prógrammi. Þvottavélar hafa fjölda stillinga fyrir alls kyns efni og við endum alltaf á því að nota þessar þrjár sömu þegar við ættum að skoða betur hvað vélin hefur upp á að bjóða.

Föt skemma önnur föt. Við þurfum að ganga vel frá skítugum lörfum áður en við skellum þeim í vélina því rennilásar og annað geta skemmt önnur föt sem þau nuddast upp við á meðan þvottur stendur yfir. Notaðu sérstaka netapoka eða þvottapoka til að þvo viðkvæmar flíkur eins og blúndutoppa og nærföt.

Það má þó ekki kenna þvottavélinni um allt saman. Því flíkin getur einfaldlega verið úr lélegu efni sem nánast er einnota og er lítið hægt að gera við því.

Sumir telja einnig að borðplatan í eldhúsinu eða baðherberginu geti myndað þessi litlu göt þegar þú hallar þér upp að speglinum á morgnana og setur á þig maskarann eða rakar skeggið en við fullyrðum ekkert um það.

mbl.is