Ómótstæðilegur smjörkjúklingur eins og hann gerist bestur!

Ljósmynd/Theodóra J. Sigurðardóttir Blöndal

Ómótstæðilegur smjörkjúklingur eins og hann gerist bestur!

Við mælum með því að láta kjúklingabringurnar liggja í marineringu í sólarhring. Það gerir bringurnar mjög safaríkar og gómsætar.

Berið fram með soðnu byggi eða hrísgrjónum, raita sósu og naan brauði. Verði ykkur að góðu!

Indverskur smjörkjúklingur (Butterchicken) með raítu sósu

Fyrir fjóra

 • 4 stk. kjúklingabringur, gott að skera í bita (4-6 stk.)
 • Olía og smjör til steikingar
 • 1 stk. gulur laukur, smátt skorinn
 • 4 stk. hvítlauksrif, kramin (4-6 stk.)
 • Stór biti engifer (6-8 sm), skorinn í bita
 • 1 msk. papríka, mulin (1-2 msk.) Salt og grófur, svartur pipar
 • 1 tsk. kúmenfræ (1-2 tsk.)
 • 4 stk. kardemommukjarnar eða 1 msk. mulið kardemommuduft
 • 1 msk. grænmetiskraftur eða 2 teningar
 • 1 stk. kanilstöng
 • 1⁄2 tsk. mulinn negull eða 5-8 stk. negulnaglar
 • 1⁄2 tsk. chilliflögur (jafnvel minna)
 • Tandoorikrydd (t.d. frá Pottagöldrum). Hálf krukka eða meira.
 • Skvetta af Worchestershiresósu
 • 1 dós niðursoðnir tómatar
 • 1 dós tómatpúrra (lítil dós)
 • 100 g smjör

Raíta:

 • 350 g grísk jógúrt eða hrein jógúrt frá Gott í matinn
 • 1⁄2 stk. gúrka, rifin og safinn kreistur vel úr henni í eldhússtykki
 • 1⁄2 rif hvítlaukur, smátt saxað eða pressað

Aðferð:

 1. Takið til öll krydd sem þið ætlið að nota.
 2. Látið ekki stöðva ykkur þótt vanti eitthvað krydd. Prófið ykkur áfram með eitthvað annað og verið óhrædd.
 3. Gott er að byrja á því að steikja bringurnar upp úr olíu og smjöri.
 4. Kryddið þær með salti, pipar og paprikudufti.
 5. Á meðan bringurnar steikjast er laukur og hvítlaukur skorinn.
 6. Afhýðið og skerið engiferið í leiðinni. Það er gott að hafa engiferið í stærri kantinum (og mikið af því).
 7. Þegar bringurnar eru tilbúnar setjið þið þær til hliðar.
 8. Á pönnunni ætti núna að vera komið gott soð frá bringunum. Hellið því í skál og geymið.
 9. Steikið lauk, hvítlauk og engifer upp úr olíu og smjöri.
 10. Bætið við kúmen-fræjum, lækkið hitann og látið laukinn svitna vel.
 11. Bætið við kardemommukjörnum (sem búið er að kremja með hnífsskafti) eða muldu kardemommudufti, grænmetiskrafti og kanilstöng. Finnið ljúfan ilminn!
 12. Negull, chiliflögur og tandoorikrydd eru næst á dagskrá. Bætið þessum kryddum saman við og hellið svo dós af niðursoðnum tómötum og tómatpúrrunni saman við.
 13. Skvettið örlítið af Worchestershire-sósu yfir, bætið soðinu af kjúklingabringunum saman við, hrærið og látið smásjóða.
 14. Setjið kjúklingabringurnar út í og síðast bætið þið smjörstykkinu saman við.
 15. Lokið fer á pönnuna og látið malla við vægan hita í 20-30 mínútur eða lengur. Því lengur sem rétturinn fær að malla því meira bragð kemur af honum.

Raíta

 1. Öllu blandað saman og látið standa aðeins og draga í sig brögðin áður en borið er fram.

Höfundur: Theodóra J. Sigurðardóttir Blöndal

mbl.is