Súkkulaðikakan sem smellpassar í janúar

Ljósmynd/Guðrún Ýr Eðvaldsdóttir

„Fyrir mörgum árum þá skellti ég nokkrum hráefnum saman í blandarann og prófaði að baka úr varð þessi frábæra kaka. Toppaði hana með bönunum og krönsi og síðan þá hef ég gert hana af og til,“ segir Guðrún Ýr Eðvaldsdóttir á Döðlur & smjör um þessa dýrindis köku.

„Hún er fullkomin janúar kaka, þar sem margir eru að sneiða hjá sykrinum eftir jólin, hentar ótrúlega vel sem fyrsta afmæliskaka eða í afmælin þegar maður vill bjóða upp á köku en ekki uppfulla af sykri. Hún hefur slegið í gegn hjá öllum aldri á mínu heimili.„

„Svo er krönsið svo gott ofan á að ég prófaði að gera það eitt og sér og vá hvað ég mæli með því í möffins form eða á plötu og skorið í bita. Fullkomið á svona eftirréttaplatta sem eru vinsælir núna, paraðir saman með t.d. jarðaberjum, melónum og döðlum. Þá er gott að tvöfalda uppskriftina.“

„Mér finnst gaman að baka kökuna í 15 cm formi þá er hún aðeins þykkari og veglegri, ef hún er bökuð í smelluformi er gott að setja bananana og Kelloggs Cornflakes blönduna á meðan það er í forminu.“

Súkkulaðikakan

  • 10 döðlur
  • 1 banani
  • 3 egg
  • 4 msk. kókosolía
  • 1/2 dl kaffi
  • 40 g kakó
  • 65 g möndlumjöl
  • 1 1/2 tsk. lyftiduft
  • 1 tsk. vanilludropar

Stillið ofn á 175°C. Steinhreinsið döðlurnar og setjið í blandara ásamt banana, eggjum, kókosolíu og kaffi, ef þið viljið sleppa kaffinu er gott að skipta því út fyrir mjólk/jurtamjólk, blandið vel saman. Hellið yfir í skál og blandið þurrefnunum og vanilludropum saman við.

Smyrjið 20 cm form með Pam spreyi og hellið deiginu í formið, bakið í 25-30 mín. Leyfið að kólna.

Ofan á

  • 1 banani
  • 2 msk. kókosolía
  • 100 g Rjómasúkkulaði án viðbætts sykurs frá Nóa Síríus
  • 2 dl Kelloggs Cornflakes

Byrjið á því að setja kökuna á disk. Skerið þá bananann í sneiðar og dreifið yfir kökuna.

Blandið kókosolíu og súkkulaði saman í skál, bræðið í örbylgjuofni og hrærið vel saman. Hellið þá kornflexi saman við og hrærir aftur vel. Dreifið yfir kökuna. Gott er að bera kökuna fram strax eða geyma hana í kæli þangað til að hún er borin fram.

Ljósmynd/Guðrún Ýr Eðvaldsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert