Food & Fun snýr aftur

Siggi Hall er einn af stofnendum hátíðarinnar Food & Fun …
Siggi Hall er einn af stofnendum hátíðarinnar Food & Fun sem haldin er í tuttugasta sinn í ár. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Okkar ástsæla matarhátíð Food & Fun hefur verið sett aftur á dagskrá eftir tveggja ára fjarveru.

Hátíðin er nú haldin í tuttugasta sinn dagana 1.-4. mars og verður öllu til tjaldað. Það er óhætt að segja að forsvarsmenn, gestir og aðrir matgæðingar séu spenntir fyrir endurkomu hátíðarinnar - en við heyrðum í Sigga Hall, matreiðslumeistaranum, sjónvarpskokkinum og einum af skipuleggjendum hátíðarinnar, sem segir það gleðiefni að koma saman á ný.

„Það eru fimmtán veitingastaðir sem taka þátt í ár, en hátíðin hefur þróast og breyst í gegnum tíðina eins og vera ber. Við erum í samstarfi við Dine Out sem munu sjá um að kynna matseðlana og hægt verður að bóka borð í gegnum síðuna þeirra. En það má nálgast matseðla og bóka borð á síðunni um miðjan mánuðinn“, segir Siggi í samtali.

Aðspurður segir Siggi að hingað munu koma erlendir gestakokkar á veitingahúsin, sem kynnast íslenska hráefninu og heillast eins og vera ber. „Það er nóg af útlendingum sem sækja hátíðina, hér er mikið af túrisma sem er forvitinn um íslenska matargerð. Eitt sinn var lítið um erlenda ferðamenn á þessum árstíma en það er af sem áður var. Í dag koma margir hingað til lands út af mat, því maturinn hér er án efa þriðja eða fjórða aðdráttaraflið fyrir utan náttúruna og norðurljósin. Reykjavík er æðisleg og það er gaman hjá öllu fólki sem ratar í bæinn“, segir Siggi að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert