Nýr Royal-búðingur væntanlegur

Ljósmynd/Guðrún Ýr Eðvaldsdóttir

Þau stórtíðiðndi berast að nýr Royal-búðingur sé væntanlegur. Royal-búðingarnir hafa notið mikilla vinsælda í tæplega 70 ár en þeir komu fyrst á markað árið 1954. Nýi búðingurinn er unninn í samstarfi við Nóa Síríus og bragðast eins og hið rómaða Pipp-súkkulaði.

Royal-búðingarnir hafa verið fastur liður á matseðli þjóðarinnar og sjálfsagt muna margir eftir því þegar að Eitt sett búðingurinn kom á markað í fyrra og seldist upp. Svo mikil voru lætin að starfsfólk verslana hafði ekki undan að fylla á.

Búðingarnir hafa gegnt ólíkum hlutverkum í gegnum tíðina. Hér áður fyrr var vinsælast að gera hann með hefðbundnu sniði, það er í glas og bera fram með rjóma. Það er blanda sem klikkar ekki en á síðari árum hefur búðingurinn orðið burðarstykkið í kökuuppskriftum sem sagðar eru verða umtalsvert betri sé pakki af Royal settur samanvið. Eins hefur sú hefð myndast að blanda Royal saman við þeyttan rjóma og fylla bolludagsbollur með. Hugmyndaauðginni virðast lítil takmörk sett en maðurinn á bak við þróun búðingana er Siggi Royal sem staðið hefur vaktina í fjölda ára. Haft hefur verið eftir honum að nýr búðingur sé nánast eins og að eignast barn, slík sé tilhlökkunin. 

Að sögn Kristínar Rögnvaldsdóttur, sölustjóra Royal, verður áhugavert að sjá hvernig viðbrögðin verða en nýi Pipp-búðingurinn verður eingöngu til sölu í takmarkaðan tíma. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert