Skólasetning í pítsuskólanum

Pizzaskólinn á Grazie Trattoria var settur með pompi og prakt á dögunum en í honum gefst áhugasömum kostur á því að læra réttu handtökin í pítugerð frá hinum ítalska Fernando sem þykir gríðarlega fær í sínu fagi og unun á að horfa.

Að sögn Jóns Arnars Guðbrandssonar, eigenda Grazie Trattoria, hefur skólinn fengið frábærar viðtökur. „Við byrjuðum að auglýsa hann fyrir jól og það má með sanni segja að hann hafi slegið í gegn enda hefur verið fullbókað hjá okkur síðan hann byrjaði.”

Kennt er frá klukkan 16 til 18.30 og fá nemendur þá kennslu í að gera pítsudeig og sósu, auk þess sem farið er yfir sögu pítsunnar, hvernig sósur og álegg er best að nota og þar frameftir götunum. „Markmiðið er að fræða en um leið að hafa þetta eins skemmtilegt og kostur er. Allir gera sína eigin pítsu sem þeir svo baka og borða á staðnum. Það er mikið hlegið og þetta er búið að vera virkilega gaman,” segir Jón Arnar og bætir við „það er hann Fernando sem sér um að kenna og hann er þungavigtarmaður í faginu. Hann hefur gríðarlega reynslu frá Napólí þar sem hann hefur starfað á mörgum af fremstu pítsastöðunum þar í borg. Hann hefur verið yfir 20 ár í bransanum og það eru gríðarleg forréttindi að fá hann með okkur í þetta skemmtilega verkefni.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert