Veitingastaðurinn Héðinn rekinn áfram eftir boðaföll

Karl Viggó Vigfússon er veitingamaður á Héðni sem hóf göngu …
Karl Viggó Vigfússon er veitingamaður á Héðni sem hóf göngu sína í miðjum heimsfaraldri og hefur átt í vök að verjast eins og fjöldi veitingastaða á Íslandi um þessar mundir. Ljósmynd/Aðsend

„Héðinn Kitchen & Bar heldur áfram rekstri í óbreyttri mynd auk þess sem við þjónustum áfram Center hótel Granda,“ segir Viggó Vigfússon, veitingamaður á Héðni, í samtali við mbl.is, en rekstrarfélagsins Héðins veitinga ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 25. janúar.

Viggó er kominn með nýtt félag á bak við veitingastaðinn sem fór vel af stað sumarið 2021 en hefur, eins og fjöldi íslenskra veitingastaða annarra, mátt krafla sig í gegnum heimsfaraldur og í beinu framhaldi brattar verðhækkanir allra aðfanga auk launakostnaðar sem reynst hefur mörgum rekstraraðilanum í geiranum þungur í skauti.

„Við erum þakklát fyrir alla okkar 55 starfsmenn sem eru með okkur í liði og við munum halda áfram að taka á móti gestum og leggja okkur fram um að bjóða upp á framúrskarandi þjónustu, góðan mat og einstaka upplifun á Héðni, líkt og undanfarin tvö ár,“ heldur Viggó áfram.

Héðinn er, eins og nafnið gefur til kynna, í gamla …
Héðinn er, eins og nafnið gefur til kynna, í gamla Héðinshúsinu við Seljaveginn vestur í bæ. Ljósmynd/Aðsend

Veirulokun og næst ekki inn fyrir launum

Vissulega þyki aðstandendum staðarins leitt hvernig fór, en ekki sé hægt að líta fram hjá því að aðgerðir vegna heimsfaraldursins hafi sett strik í reikninginn.

„Aðgerðirnar höfðu bæði áhrif á afkomu félagsins þetta fyrsta rekstrarár og sér í lagi það næsta sem beint og óbeint einkenndist líka af áhrifum faraldursins,“ rifjar veitingamaðurinn upp.

Nóvember og desember 2021 hafi litið vel út þar til hert var á sóttvarnareglum. „Og svo byrjum við bara í brattri brekku í janúar í fyrra, lokun vegna Covid, næst ekki inn fyrir launum og þetta er bara endalaus brekka. Eftir opnun á ný er ekki eins og allt fari á fullt á fyrsta degi, fólk þurfti að venjast nýjum raunveruleika og laga sig að nýjum venjum,“ segir Viggó.

Honum þyki sárt hvernig fór með fyrra rekstrarfélag, það hafi ekki átt að gerast en við því sé ekkert annað að gera en bíta á jaxlinn og halda áfram.

„Annað sem svo í framhaldinu markaði reksturinn auðvitað gríðarlega voru þættir sem ógerlegt er fyrir okkur að stýra eða hafa áhrif á, til dæmis hækkandi heimsmarkaðsverð á hrávöru eins og fjölmargir aðrir í veitingahúsarekstri hafa bent á undanfarið. Nú höfum við stofnað nýtt félag ásamt öðrum og samið við alla okkar birgja.“

„Annað sem svo í framhaldinu markaði reksturinn auðvitað gríðarlega voru …
„Annað sem svo í framhaldinu markaði reksturinn auðvitað gríðarlega voru þættir sem ógerlegt er fyrir okkur að stýra eða hafa áhrif á, til dæmis hækkandi heimsmarkaðsverð á hrávöru eins og fjölmargir aðrir í veitingahúsarekstri hafa bent á undanfarið,“ segir Viggó um gang mála að loknum heimsfaraldri. Við tók stríð í Evrópu með víðtækum afleiðingum. Ljósmynd/Aðsend

„Erum bjartsýn á komandi tíma“

Starfsfólk staðarins bætist nú í hóp hluthafa og yfirstandandi breytingar séu liður í að mæta þeim áskorunum sem árið 2023 muni bjóða upp á. „Við finnum sterkt fyrir því að við erum öll samtaka í að takast á við það sem við höfum staðið frammi fyrir undanfarin tvö ár,“ segir Viggó sem snýr nú vörn í sókn eftir boðaföll heimsfaraldursins.

Segir hann frá því að næstu helgi heimsæki Gísli Matthías Auðunsson Héðin, betur þekktur sem Gísli Matt á veitingastaðnum Slippnum í Vestmannaeyjum, og taki sér stöðu í eldhúsinu við hlið Sindra Guðbrands Sigurðssonar, yfirkokks Héðins, en Sindri er einnig þjálfari íslenska kokkalandsliðsins. Saman muni þeir kokkar standa að sjö rétta matseðli með vínpörun.

„Við erum bjartsýn á komandi tíma í nýju félagi og sjáum vel fyrir okkur að Héðinn Kitchen & Bar muni standa þennan storm af sér með öllu þessu metnaðarfulla fólki sem leggur hönd á plóg,“ segir Viggó Vigfússon veitingamaður að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert