Spennandi viðburður á Moss í Bláa Lóninu

Thibault Jacquet, yfirvínframleiðandi.
Thibault Jacquet, yfirvínframleiðandi. Ljósmynd/Aðsend

Þann 18. febrúar næstkomandi mun Thibault Jacquet, yfirvínframleiðandi hinnar virtu vínekru, Domaine Bonneau du Martray í Côte de Beaune vínræktarhéraðinu í Búrgúnd í Frakklandi taka á móti gestum á Moss, veitingastað Retreat hótelsins í Bláa Lóninu.

Mun hann kynna vínpörun með sex árstíðabundnum réttum sem Agnar Sverrisson yfirmatreiðslumaður og matreiðsluteymi Moss munu elda fyrir gesti. Hver réttur verður paraður á faglegan hátt við einstaka vínárganga en vínekran er þúsund ára gömul og er sú eina í Búrgúnd héraðinu sem framleiðir eingöngu vín frá Grand cru vínekrum. Í dag er vínekran í eigu Bandaríkjamannsins Stanley Kroenke, sem einnig á Screaming Eagle víngerðina í Napa-dal í Kaliforníu.

Síðan Agnar Sverrisson tók við sem yfirmatreiðslumaður á Moss árið 2020 hafa margir þekktir Michelin-stjörnu kokkar og vínþjónar komið til landsins og unnið með honum á veitingastaðnum. Á síðasta ári komu Michelin-stjörnu kokkarnir Raymond Blanc yfirmatreiðslumeistari Le Manoir aux Quat'Saisons og Ollie Dabbous, yfirmatreiðslumaður veitingastaðarins Hide í London.

„Við höldum áfram að fá til okkar þekkta matreiðslumeistara, vínframleiður og -þjóna. Við leggjum mikinn metnað í að fá þessa meistara til landsins og við hlökkum mikið til að taka á móti Thibault Jacquet, framkvæmdastjóra Domaine Bonneau du Martray”, segir Agnar Sverrisson, yfirmatreiðslumeistari hjá Moss. “Thibault ætlar að fara með okkur í gegnum þá miklu sögu sem býr í vínekrunum sem hann stýrir og kynna fyrir okkur rauðvínin, Corton, og hvítvínin, Corton Charlemagne Grand Cru. Á viðburðinum verða nokkur ótrúlega mögnuð vín borin fram og það hefur verið sönn ánægja að setja saman einstakan sex rétta matseðil til að fá sem besta samspil matar og vínsins sem í boði er að þessu sinni frá vínekrunni.”  

Agnar Sverrisson lærði hjá hinum fræga matreiðslumeistara Raymond Blanc á Le Manoir aux Quat'Saisons í Bretlandi. Hann stofnaði síðar veitingastaðinn Texture í London sem fékk Michelin-stjörnu árið 2010 og hélt henni í 10 ár þangað til hann lokaði staðnum og flutti aftur heim á ný.


Hin virta vínekra, Domaine Bonneau du Martray í Côte de …
Hin virta vínekra, Domaine Bonneau du Martray í Côte de Beaune vínræktarhéraðinu í Búrgúnd í Frakklandi. Ljósmynd/Aðsend
Agnar Sverrisson yfirmatreiðslumaður á Moss
Agnar Sverrisson yfirmatreiðslumaður á Moss Ljósmynd/Aðsend
mbl.is