Þessir veitingastaðir taka þátt í átaki Barnaheilla

Ljósmynd/Park Hyatt Jeddah

Út að borða fyrir börnin, fjáröflunarátak Barnaheilla og veitingastaða, hófst í gær, 15. febrúar. Veitingastaðir styðja átakið með því að láta ágóða af matseðli renna til verkefna sem snúa að vernd barna gegn ofbeldi. Átakið fer nú fram í tólfta sinn og stendur yfir í einn mánuð eða frá 15. febrúar til 15. mars.

„Það er svo mikilvægt að samfélagið allt taki höndum saman um að styðja við vernd á ofbeldi gegn börnum. Þeir veitingastaðir sem taka þátt í átakinu Út að borða fyrir börnin sýna hug sinn svo sannarlega í verki og fyrir það erum við afar þakklát. Féð sem safnast rennur til þeirra verkefna sem Barnaheill hafa með höndum en þau snúa öll að því að vernda börn gegn hvers kyns ofbeldi með einum eða öðrum hætti,“ segir Ellen Calmon, framkvæmdastýra Barnaheilla. „Ég vil hvetja fólk til að heimasækja þessa veitingastaði á næstu dögum og versla af matseðli þá rétti sem styðja við verndun barna.“

Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna var lögfestur hér á landi árið 2013 og í honum er börnum tryggður réttur til verndar gegn ofbeldi. Það er hlutverk hinna fullorðnu að gæta þess að hvert og eitt barn njóti réttar síns.

Öll verkefni Barnaheilla snúa að vernd barna gegn ofbeldi, bæði hér innanlands og erlendis. Tvö af stærstu innlendu verkefnum Barnaheilla eru annars vegar Vinátta, forvarnarverkefni gegn einelti í leik- og grunnskólum og hins vegar Verndarar barna, sem er gagnreynd fræðsla í forvörnum og viðbrögðum við kynferðisofbeldi á börnum. Markmiðið er að veita fullorðnu fólki öfluga fræðslu og markvissa þjálfun í að fyrirbyggja, þekkja og bregðast við kynferðisofbeldi af festu og ábyrgð. Barnaheill eru einnig með verkefni í Síerra Leóne, Líberíu og Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó þar sem áhersla er lögð á að vernda börn gegn hvers kyns ofbeldi.

„Þú getur slegið tvær flugur í einu höggi með því að fara út að borða með börnin. Bæði gleður þú börnin og átt með þeim samverustund og stuðlar í leiðinni að bættum mannréttindum barna og vernd þeirra gegn ofbeldi,“ segir Ellen.

Þeir veitingastaðir sem taka þátti í átakinu eru:

  • Nauthóll
  • Sjávargrillið
  • Pizza Hut
  • Domino’s
  • KFC
  • Taco Bell
  • Galito
  • Burger Inn
  • Grill 66
  • Kringlukráin
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert