Þjóðarréttur Íslendinga hafður að háði?

mbl.is/Ölverk

Pítsa mánaðarins í mars á Ölverk í Hveragerði hefur vakið talsverða athygli undanfarið, enda um að ræða nýjan snúning á einum alheilagasta þjóðrétti Íslendinga ‘pulsu með öllu’ - eða eins og sumir vilja segja, ‘pylsu með öllu.’

Matargagnrýndendur hafa – réttilega að mati sumra – haft uppi efasemdir um lögmæti þessa matargjörnings þar sem tveir ástsælustu réttir landsmanna, pulsa og pítsa, hafa verið sameinaðir í eldbakaða Pulsupítsu með öllu. Samkvæmt Elvari Þrastarsyni, eiganda og pítsugerðarmeistara Ölverks, þá kviknaði hugmyndin að Pulsupítsunni á svipaðann hátt og flestar skemmtilegar hugmyndir – eins og þruma úr heiðskíru lofti.

„Ég er alltaf með hugann við mat og hef alltaf frá því ég man eftir mér spáð mjög mikið í matargerð, matarhefðum, sterkum sósum og bjór – og hvað gæti hugsanlega passað saman með hverju. Hugmyndin að Pulsupítsunni eða Pylsupítsunni eins og sumir vilja kalla hana, laust niður þegar ég var á leiðinni á Selfoss núna fyrr í vetur. Var þá eins og svo oft með hugann við matargerð að hugsa um fiski taco, sem er kallað Faco, og fór þá að hugsa um hvernig það væri  hægt að breyta pítsu á jafn skemmtilegan hátt. Var svo rétt kominn inn á Selfoss og var litið í áttina að SS og það var nóg. Hugmyndin að Ölverk Pulsupítsu með öllu; hráum og steiktum lauk, sinnepi, remúlaði, tómatsósu og mozzarella osti, var fædd,” segir Elvar í samtali.

Næstu dagar hjá Elvari fóru í allskyns tilraunir og margar hráfefnisleiðangra en svo var það  einfaldasta hugmyndin sem hafði sigurinn. Ein með öllu mínus brauðið plús Ölverk pítsubotn og mozzarella ostur. „Þetta er alveg topp pulsupítsu upplifun enda fátt sem toppar íslensku pulsuna og hvað þá ef sameinuð við pítsunar okkar”, segir Elvar.

Aðspurður um framhaldið segist Elvar vera í skýjunum með viðtökurnar á Pulsupítsunni og að næstu mánuðina verði ákveðið þema í pítsu mánaðarins á Ölverk. Viðskiptavinir megi búast við hressandi andófi gegn hinum hefðbundna skyndibita og að fókusinn verði á því að beygja lögmál og óskrifaðar reglur, tvinna saman pítsugerð og skyndibita héðan og þaðan úr heiminum svo skapist einstök matarupplifun.

Elvar Þrastarson, annar eigenda Ölverks og pítsugerðarmaður með meiru.
Elvar Þrastarson, annar eigenda Ölverks og pítsugerðarmaður með meiru. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is