Gordon Ramsay slátrar PRIME

Við sem eigum börn á ákveðnum aldri höfum ekki komist hjá því að sjá tryllinginn í kringum drykkinn PRIME. Óþarfi er að fjölyrða neitt sérstaklega um eftirspurnina sem hefur skapast eftir drykknum en tvær vinsælar YouTube-stjörnur standa að baki hans og svo virðist sem enginn sé maður með mönnum nema drekka PRIME.

Meistari Gordon Ramsay smakkaði drykkinn í útvarpsviðtali á dögunum og hafa viðbrögð hans vakið mikla athygli enda sparaði hann ekki stóru orðin frekar en fyrri daginn. Sagði hann drykkinn bragðast eins og ilmvatn og hann gæfi honum núll í einkunn.

Umræðurnar voru mjög hressandi eins og sjá má í meðfylgjandi myndbandi. Amanda Holden líkti drykknum við bráðnaðan frostpinna en heilt yfir voru menn sammála um að bragðið væri mjög yfirþyrmandi og gríðarlega sætt.

Það stoppar þó ekki æsku þessa lands í að svolgra drykkinn í sig...

mbl.is