Lambalæri með bestu sósunni

Ljósmynd/Íslenskt lambakjöt

Hér gefur að líta eina af þessum keppnisuppskriftum sem eru samt svo einfaldar. Flest viljum við ekki bregða mikið út af vananum en stundum má stíga nokkur hænuskref til hliðar og bæta við spennandi grænmeti í steikarpottinn eða kryddi. Ekki spillir sósan fyrir en hér er á ferðinni ekta bernaise-sósa sem er í uppáhaldi hjá ansi mörgum.

Steikt lambalæri

  • 1 úrbeinað lambalæri (um 1,5 kg)
  • 3 msk. olía
  • 1 msk. óreganó
  • 5 timíangreinar
  • 2 tsk. salt
  • 1½ tsk. pipar
  • 1 búnt vorlaukur

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 200°C og nuddið olíu á lærið, stráið óreganó og timían ofan á og kryddið með salti og pipar. Setjið lærið í ofnskúffu ásamt vorlaukunum og eldið í 40-50 mín. eftir því hversu stórt lærið er og hversu vel þið viljið hafa það steikt. Látið hvíla í að minnsta kosti 15 mín. áður en borið fram.
  2. Berið fram með meðlæti að eigin vali og heimagerðri béarnaisesósu.

Béarnaisesósa

  • 500 g smjör
  • 5 eggjarauður
  • 1 msk. vatn
  • 2 msk. béarnaise essence
  • 1 tsk. þurrkað estragon eða 2-3 ferskt
  • salt og nýmulinn pipar

Aðferð:

  1. Bræðið smjörið á meðalhita, látið kólna ögn, æskilegur hiti um 65°C
  2. Setjið vatn í pott og hitið að suðu, lækkið hitann. Setjið eggjarauður, béarnaise essence og vatn í skál sem passar á pottinn. Þeytið viðstöðulaust yfir heitu vatnsbaðinu þar til rauðurnar þykkna og blandan er loftkennd og létt í sér. Athugið að hér er auðvelt að fara fram úr sér og elda rauðurnar of hratt!
  3. Takið skálina frekar af hitanum nokkrum sinnum og hægið á ferlinu sem má taka nokkrar mínútur. Takið af hitanum þegar réttri áferð er náð og þeytið smjörinu í smáum skömmtum saman við eggjarauðurnar.
  4. Bætið estragon við og smakkið til með salti, pipar og mögulega ögn af béarnaise essence. Geymið á heitum stað (jafnvel í hitabrúsa) þar til sósan er borin fram. thora@mbl.is
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert