Glæsileg endurhönnun Sólon Islandus

Veitingastaðurinn Sólon í Bankastræti er samofinn íslenskri veitinga- og skemmtanasögu enda staðurinn verið í lykilhlutverki í veitinga- og skemmtanalífi þjóðarinnar í áratugi. Nýverið festi fjárfestirinn Þórir Jóhannsson kaup á staðnum og á honum hvíldi spurningin: Hvað skal gera við Sólon?

„Fyrst vildi ég kollvarpa öllu. Endurskýra staðin og hugsa þetta allt upp á nýtt. Smám saman skipti ég um skoðun enda Sólon gríðarlega sterkt vörumerki og sjálfsagt flestir sem kannast við staðinn og staðsetningu hans. Því varð það ofan á að halda Sólon nafninu en bæta Islandus við. Ég fékk innanhússarkitektinn Hönnu Stínu til liðs við mig og gæti ekki verið ánægðari með útkomuna,” segir Þórir.

mbl.is/Kristinn Magnússon

„Nýi matseðillinn er ekki flókinn, en fjölbreyttur og það ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi. Það var útgangspunkturinn. Við viljum fyrst og fremst bjóða upp á góðan mat á góðu verði og ég held að það hafi tekist,” segir Þórir en seðillinn er fjölbreyttur en athygli vekur gott úrval rétta sem innihalda ekki kjöt. Steikarfólkið fær þó sitt, sem og þeir sem kjósa góðan fisk.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Gjörbreyttur staður

Óhætt er að segja að útkoman á Sólon Islandus sé hin glæsilegasta en það var innanhússarkitektinn Hanna Stína sem sá um hönnunina. Hún segir að sig hafi alltaf klæjað í puttana að fá að hanna Sólon og því hafi hún ekki verið lengi að segja já þegar Þórir bauð henni verkefnið. „Það fyrsta sem að dró mig að verkefninu hönnunarlega séð voru loftin sem eru upprunaleg og taka rýmið á annað stig. Við settum óbeina lýsingu inn í kassana og það kemur virkilega vel út,” segir Hanna Stína en loftin eru upprunaleg og steypt þannig að þau eru nánast eins og krúnudjásn staðarins. „Húsið er byggt þegar Art Deco stefnan var í algleymingi. Þar er glamúrinn, litirnir og flúrið í aðalhlutverki. Á sama tíma þarf staðurinn að geta þjónað sem flestum yfir stóran hluta dagsins og því þurfti ég að hugsa hvernig ég gæti tekið staðinn mjúklega frá hádegi, yfir í kvöldið og loks fram á nótt.”

Innanhussarkítektinn Hanna Stína.
Innanhussarkítektinn Hanna Stína. Ljósmynd/Kári Sverris

Hanna Stína leggur mikið upp úr litapallettunni en hún er þekkt fyrir litaval sitt. „Það þarf allt að vinna saman; litir, hljóðvist og lýsing. Ákveðið var að halda í gamla nafnið og þá tengdi maður það svolítið við sólina. Við sjáum það til dæmis í Raffia veggfóðrinu á stóra veggnum þar sem sólargangurinn sést. Flæðið inn á staðnum er mikilvægt og staðsetningin á barnum. Við látum fólkið sitja við gluggana sem eru auðvitað alveg ótrúlega stórir og fallegir og við vorum ekki mikið að róta í "layoutinu" á barnum - hann er sirka á sama stað og áður og það virkaði vel. Á aðal hæðinni erum við með rólegri stemmningu yfir daginn og svo getur fólk fært sig upp á kvöldin og þá myndast meiri bar og klúbbastemmning þegar líður á kvöldið/nóttina.”

mbl.is/Kristinn Magnússon

UPTOWN – nýr bar á efri hæð Sólon

Sú stefnubreyting hefur verið tekin að leggja áherslu á nýjan hóp á skemmtistaðnum á efri hæðinni en þar er stefnt að því að höfða til eldri markhóps en hingað til. „Þetta er markhópur sem mér finnst lítið sinnt en ætlunin er að geta verið með þægilega stemningu á neðri hæðinni en svo á efri hæðinni erum við að opna hálfgerðan klúbb þar sem hægt verður að dansa við góða tónlist allra áratuga. Hann mun opna fyrr og loka fyrr – líklega ekki lengur en til tvö því eftir covid hefur skemmtanalífið færst framar í tíma. Hann mun heita Uptown en þar verður fyrsta flokks hljóðkerfi og jafnframt vettvangur fyrir okkur til að bjóða upp á alls kyns viðburði á borð við tónleika og mun hann opna á næstu vikum.”

mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert