Fágað og hátíðlegt síðdegisteboð í tilefni af krýningu Karls

Ef þú ætlar að bjóða gestum í konunglegt boð er …
Ef þú ætlar að bjóða gestum í konunglegt boð er lykilatriði að vera með þriggja hæða kökudisk. Það þarf að raða rétt á diskinn. Samlokur eiga að vera neðst og sætmeti efst. Skonsurnar koma svo í miðjuna. mbl.is/Sjöfn Þórðar

Það styttist óðum í krýningu Karls konungs Bretlands en hún fer fram 6. maí næstkomandi og í tilefni þess er upplagt að rifja upp hið breska og sívinsæla síðdegisteboð eða eins og það heitir á ensku „afternoon tea“. Ef þig langar að útbúa kræsingar í anda bresku konungsfjölskyldunnar gætu þessar uppskriftir hjálpað þér

Forsögu teboða má rekja til þess þegar Karl II. kvæntist Katrínu af Braganza í Portúgal en þá var tedrykkja orðin nokkuð almenn meðal hefðarfólks í Evrópu og hluti af lífsstílnum. Teboðin þróuðust í áranna rás og má segja að um 1830 hafi teboðin verið orðin eins og þau líta út í dag. Samkvæmt sögunni er talið að Anna hertogaynja af Bedford hafi boðið í fyrsta síðdegisteboðið í Bretlandi. Stuttur eftir það breiddist þessi fágaði og hátíðlegi siður út meðal hefðarfólksins.

Síðdegisteboðið, eða afternoon tea, er fágað og hátíðlegt kaffisamsæti og einstaklega skemmtileg upplifun þegar það er tekið alla leið eftir hefðum og siðum sem því fylgir.

Kræsingarnar sem boðið er upp á eru bornar fram á þriggja hæða kökudiskum og raðað í ákveðinni röð. Á neðstu hæðinni eru samlokur, sagan segir að vinsælast sé að bjóða upp á hinar frægu gúrkusamlokur og túnfisksamlokur. Seinni árin hefur líka verið vinsælt að bjóða upp á samlokur með reyktum laxi og rjómaosti. Fólk byrjar á neðstu hæðinni og færir sig síðan upp. Á annarri hæð er boðið upp á ekta enskar skonsur með þeyttu smjöri og sultutaui, sumir bjóða upp á sítrónusmjör (e. Lemon curd). Á efstu hæðinni er að finna sætmeti, gjarnan sæta bita og ávexti, en það má líka vera með makkarónur, hjúpuð jarðarber eða hvaðeina sem matarhjartað girnist.

Með þessum hátíðlega og glæsilega þriggja hæða kökudisk er boðið upp á te. Bretar eru mikið fyrir gott te og eiga líka sína siði og hefðir varðandi hvernig það er borið fram og drukkið. Til að mynda á helst að hella mjólkinni fyrst í bollann og svo teinu. Það á ekki að hræra í hringi með teskeiðinni heldur fram og til baka án þess að snerta bollann.

Enskar skonsur að hætti
Bretadrottningar

280 g hveiti

1 msk. lyftiduft

¼ tsk. salt

50 g smjör, skorið í bita

1 egg

5 msk. mjólk

egg til penslunar

Aðferð:

  1. Hitið ofn í 220°C.
  2. Blandið saman hveiti, lyftidufti og salti í skál.

  3.  Skerið smjör í bita og myljið saman við. Gerið holu í miðjuna og setjið egg og mjólk þar í.

  4.  Vinnið þurrefnin saman við, takið úr skálinni og eltið þar til deigið helst vel saman.

  5.  Breiðið út með kökukefli, u.þ.b. 1 cm þykkt, og skerið með fremur litlu glasi.

  6.  Penslið með þeyttu eggi. Setjið á bökunarpappír á plötu, fremur þétt, bollurnar lyfta sér talsvert, en fletjast ekki út.

  7.  Bakið í 8-12 mínútur á blæstri. Getur verið misjafnt eftir ofnum, og því gott að fylgjast vel með.

  8.  Berið fram með sultutaui, lemon curd og þeyttu smjöri, eða því sem ykkur þykir best.

 

Veisla á þremur hæðum! Alvöru royalistar setja samlokur á neðstu …
Veisla á þremur hæðum! Alvöru royalistar setja samlokur á neðstu hæðina, skonsur á aðra hæð og sætindi á þá þriðju. Fólk þarf líka að borða matinn í réttri röð. mbl.is/Sjöfn Þórðar

 

Sítrónusmjör
(Lemon curd)

  • 4 stk. sítrónur, lífrænar – rifinn börkur og safi úr þeim öllum eða u.þ.b. 125 ml af safa
  • 200 g sykur
  • 3 egg
  • 120 g kalt smjör, skorið í litla bita

Aðferð:

  1. Rífið börkinn af sítrónunum og gætið þess að taka bara gula partinn.
  2. Pressið safann úr sítrónunum og mælið.
  3. Setjið börk, sítrónusafa, sykur og egg í pott og hrærið vel saman á vægum hita.
  4. Hrærið vel saman yfir hitanum þar til blandan fer aðeins að þykkna, tekur um það bil fimm mínútur, athugið að blandan má ekki sjóða.
  5. Takið pottinn af hitanum.
  6. Blandið smjörinu sem búið er að skera í bita smátt og smátt út í sítrónublönduna og hrærið vel saman.
  7. Setjið blönduna í sótthreinsaða krukku og geymið í kæli. Sítrónusmjörið geymist vel í kæli í nokkrar vikur.

Gúrkusamlokur að hætti Elísabetar Bretadrottningar

  • ½ hvítt brauð
  • ½ agúrka, skorin í þunnar sneiðar
  • mjúkt smjör eftir smekk
  • ½ búnt mynta, smátt söxuð
  • svartur pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Takið brauðsneiðarnar og skerið skorpuna af.
  2. Smyrjið sneiðarnar með mjúku smjöri.
  3. Setjið tvö lög af gúrkusneiðum á fjórar sneiðar.
  4. Dreifið myntunni yfir gúrkurnar ásamt svörtum pipar.
  5. Toppið sneiðarnar með annarri smurðri sneið.
  6. Skerið hverja samloku þvert yfir, svo úr verði þríhyrndar litlar samlokur.

Túnfisk-lúxussamlokur

  • ½ hvítt brauð
  • 1 skammtur af túnfisksalati, heimagert ávallt best
  • ½ búnt steinselja, smátt söxuð
  • svartur pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Takið brauðsneiðarnar og skerið skorpuna af.
  2. Smyrjið sneiðarnar með túnfisksalati.
  3. Dreifið steinselju yfir salatið ásamt svörtum pipar.
  4. Toppið sneiðarnar með annarri sneið.
  5. Skerið hverja samloku þvert yfir, svo úr verði þríhyrndar litlar samlokur.
Konunglegar skonsur. Það verða að vera ekta skonsur í boðinu.
Konunglegar skonsur. Það verða að vera ekta skonsur í boðinu. mbl.is/Sjöfn Þórðar
Leggðu fallega á borð. Dragðu fram sparistellið og vertu með …
Leggðu fallega á borð. Dragðu fram sparistellið og vertu með tauservíettur. mbl.is/Sjöfn Þórðar
Heimagert sítrónusmjör Ef þú vilt slá um þig þá útbýrðu …
Heimagert sítrónusmjör Ef þú vilt slá um þig þá útbýrðu þitt eigið sítrónusmjör. Unsplash/James Trenda
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert