Leynitrixið sem tekur Rice Krispies upp á næsta stig

Ásthildur Hannesdóttir verkefnastjóri hjá Árvakri töfraði fram Rice Krispies köku …
Ásthildur Hannesdóttir verkefnastjóri hjá Árvakri töfraði fram Rice Krispies köku sem sló í gegn. Ljósmynd/Samsett

Ásthildur Hannesdóttir verkefnastjóri hjá Árvakri útbjó einstaka Rice Krispies-köku á dögunum. Lykillinn að góðu bragði kökunnar er margþætt. Hún notaði til dæmis Mars-súkkulaði í botninn með hinu klassíska Suðusúkkulaði frá Nóa Síríus. Ofan á kökuna setti hún bananarjóma og skreytti með ferskum jarðarberjum, kókósbollum og Nóa Kropp með Cappuccino bragði. Þessi samsetning er eitthvað sem Rice Krispies-elskandi fólk verður nauðsynlega að prófa. 

Rice Krispies með Nóa Kroppi með Cappuccino bragði

 Botn

 • 100 g smjör
 • 100 g suðusúkkulaði
 • 100 g Mars-súkkulaði
 • 4 msk. síróp
 • 5 bollar Rice Krispies

 Aðferð

 1. Bræðið smjör við vægan hita, setjið súkkulaðið saman við og leyfið því að bráðna.
 2. Bætið sírópinu því næst og hrærið vel saman, passið að hafa vægan hita svo blandan brenni ekki.
 3. Þegar allt er orðið silkimjúkt þá er gott að blanda Rice Krispies út í.
 4. Hellið blöndunni í form og leyfið botninum að kólna í kæli í lágmark 15 mínútur.

Bananarjómi

 • 2,5 dl rjómi

 • 1/2 banani

Aðferð

 1. Þeytið rjómann. 

 2. Stappið banana og bætið út í rjómann

 3. Blandið varlega saman og setjið ofan á Rice Krispies-kökuna þegar hún er orðin köld.

Skreytið með ferskum jarðarberjum, Nóa Kroppi með Cappuccino bragði og kókósbollum. 

Ljósmynd/MMWJ
mbl.is