Hefur þú smakkað avókadó-súkkulaðimús?

Ljósmynd/Unsplash/Bruna Branco

Avókadó-súkkulaðimús er hinn fullkomni eftirréttur þegar þig langar í eitthvað sætt en hollt eftir kvöldmat. Súkkulaðimúsin er einstaklega ljúffeng og engum gæti dottið í hug að í henni leyndist bráðhollt avókadó, næringarríkar döðlur og sykurlaus möndlumjólk.

Það tekur einungis nokkrar mínútur að útbúa súkkulaðimúsina og innihaldsefnin eru afar einföld.

Ljúffeng avókadó-súkkulaðimús

Hráefni fyrir tvo:

  • 2 stór og þroskuð avókadó
  • 5-10 döðlur (lagðar í bleyti í heitt vatn)
  • 4 msk kakóduft
  • 1 dl möndlumjólk
  • 1 tsk vanilludropar
  • 2 msk agave síróp
  • Klípa af salti

Aðferð:

  1. Byrjaðu á því að leggja döðlur í bleyti í heitt vatn þar til þær eru orðnar mjúkar. Fjöldi af döðlum fer eftir því hvað þú vilt hafa músina sæta.
  2. Settu öll hráefnin í matvinnsluvél og blandaðu vel saman þar til þú ert komin með mjúka og slétta áferð.
  3. Smakkaðu músina til. Ef hún er of þykk getur þú bætt meiri möndlumjólk út í, og eins getur þú bætt meiri sætu út í ef þú vilt hafa músina sætari.
  4. Settu súkkulaðimúsina í lokað ílát inn í ísskáp í a.m.k. 30 mínútur áður en hún er borin fram.
  5. Músin er ljúffeng ein og sér, en þeir sem vilja geta toppað hana með rjóma, berjum og hnetum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert