Bæjarstjórinn býður upp á vikumatseðilinn

Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri á Akureyri hefur mikla ástríðu fyrir því …
Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri á Akureyri hefur mikla ástríðu fyrir því að elda og býður upp á vikumatseðilinn að þessu sinni. Ljósmynd/Auðunn Níelsson

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, er mikill ástríðukokkur og er þekkt fyrir sína ljúffengu og heimilislegu rétti. Hún er mikil fjölskyldumanneskja og leggur mikið upp úr því að laga mat sem heimilismeðlimir eru hrifnir af. Ásthildur á heiðurinn að vikumatseðlinum að þessu sinni sem er bæði fjölskylduvænn og girnilegur og allir ættu að ráða við.

„Ég elda helst fisk. Við erum mikið fiskfólk á mínu heimili. Maðurinn minn er sjómaður og því eru hæg heimatökin. Þorskur er uppáhaldið en stundum er lax eða bleikja. Best er að fá nýgenginn sjóbirting að sumri. Ég elda mat eiginlega alla daga en fyrir mér er matreiðslan hvíld og hugarró. Mér skilst að ég hugsi mikið um mat enda er ég oftast nær farin að leggja drög að kvöldmatnum í morgunmatnum,“ segir Ásthildur.

Ásthildur hefur mikla ástríðu fyrir því að elda og nýtur sín enn frekar í matargerðinni eftir að hún eignaðist barn. „Ég hef óskaplega gaman af því að elda en eftir að ég eignaðist barn og hún stækkað þá hefur maturinn þurft að verða einfaldari og bragðminni sem ég er með dags daglega. Best þykir henni að fá soðna ýsu eða steiktan fisk í raspi. Nú eða íslenska kjötsúpu! Hún lætur mig líka alveg vita að skólamaturinn í Lundarskóla sé mun betri en minn. Mér finnst það mikil meðmæli með matnum í skólanum sem ég veit að er mjög góður og vandaður.“

Matseðillinn fylgir árstíðunum

„Ég elda allt annan mat yfir sumarið en á veturna. Á Akureyri eru árstíðirnar mjög skýrar og ég get sagt að matseðillinn minn fylgir þeim. Yfir sumarið er enn meira af fiski og oftar en ekki er eitthvað sem við höfum veitt sjálf. Á haustin og veturna er bragðmeiri og þyngri matur. Langeldaðar kássur og eitthvað sem kemur hita í kroppinn.“

Í mörg horn er að líta hjá bæjarstjóranum og aðspurð segir Ásthildur að bærinn sé að stækka. „Margt er í gangi og verkefnin ávallt næg á borði bæjarstjórans. Mikil uppbygging á Akureyri og nýlega fæddist 20 þúsundasti íbúi bæjarins. Ég er bjartsýn fyrir komandi tíma á Akureyri,“ segir Ásthldur að lokum.

Hér sviptir Ásthildur hulunni af vikumatseðlinum sínum sem lítur mjög girnilega út og er sem fyrr segir mjög fjölskylduvænn.

Girnilegur gratíneraður fiskur passar vel á mánudagskvöldi.
Girnilegur gratíneraður fiskur passar vel á mánudagskvöldi. Ljósmynd/Berglind Hreiðars

Mánudagur – Gratíneraður fiskréttur

„Á mánudögum er oftast nær fiskur ef ekki er til afgangur frá deginum áður. Ég legg mig fram um að nýta afganga. Nota kjöt, kartöflur og sósu og bý til hálfgerðan pottrétt. Það þykir öllum gott. En ef það er ekki soðinn fiskur með lauksmjöri þá er þetta gott.“

Steiktur fiskur með kokteilsósu er eitthvað sem Íslendingar elska, Ásthildur …
Steiktur fiskur með kokteilsósu er eitthvað sem Íslendingar elska, Ásthildur hefur hana ávallt með. Ljósmynd/María Gomez

Þriðjudagur – Steiktur fiskur í boði bóndans

„Á þriðjudögum er bæjarstjórnarfundur og þá eldar Hafþór oftast. Steiktur fiskur er nánast undantekningalaust. Og auðvitað er kokteilsósa með.“

Þetta er lúxus útgáfan af bolognese en í þessum rétti …
Þetta er lúxus útgáfan af bolognese en í þessum rétti er beikon sem gleður bragðlaukana. Ljósmynd/Snorri Guðmundsson

Miðvikudagur – Spaghetti Bolognese

„Við elskum spaghetti bolognese. Á miðvikudögum er það tilvalið. Ég er búin að þróa mína kjötsósu lengi og þessi uppskrift er í áttina. En ég lofa að deila með ykkur minni uppskrift innan tíðar. Þessi verður að duga þangað til.“

Undursamlega ljúffengur grjónagrautur með kanill er fjölskylduvænn og góður réttur.
Undursamlega ljúffengur grjónagrautur með kanill er fjölskylduvænn og góður réttur. Ljósmynd/María Gomez

Fimmtudagur - Grjónagrautur

„Á fimmtudögum er ágætt að hafa grjónagraut. Ég er yfirleitt orðin dálítið þreytt og stundum förum við í sund eftir kvöldmat og fyrir svefn og þá er fínt að hafa eitthvað fljótlegt.“

Kartöflupitsa er eitthvað sem gaman er að prófa.
Kartöflupitsa er eitthvað sem gaman er að prófa. Ljósmynd/Tia Borgsmidt

Föstudagur - Pitsukvöld

„Á föstudögum er pítsa. Ég smakkaði kartöflupítsu hjá systur minni fyrir nokkrum árum og það er uppáhaldið mitt enn þann dag í dag.“

Dýrðlegur kjúklingaréttur sem kemur bragðlaukunum á flug.
Dýrðlegur kjúklingaréttur sem kemur bragðlaukunum á flug. Ljósmynd/Aðsend

Laugardagur – Marokkóskur kjúklingur

„Á laugardögum er gaman að prófa eitthvað nýtt. Mér finnst marokkóskur matur ofsalega góður. Elska kryddin og samspil sætu og þess sterka.“

Klassísk mexíkósk kjúklingasúpa slær ávallt í gegn.
Klassísk mexíkósk kjúklingasúpa slær ávallt í gegn. Ljósmynd/Árni Þór Árnason

Sunnudagur – Mexikósk kjúklingasúpa

„Um helgar geri ég eitthvað virkilega gott. Eitthvað nýtt og spennandi á laugardagskvöldum nú eða bara lambakjöt og á sunnudögum reynum við alltaf að borða snemma. Þá er til dæmis mjög sniðugt að hafa mexíkóska kjúklingasúpu í matinn og borða afganginn daginn eftir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert