Rjúkandi heit skinkuhorn ylja

Berglind Hreiðars matarbloggari með meiru mælir með þessum dásamlegum skinkuhornum …
Berglind Hreiðars matarbloggari með meiru mælir með þessum dásamlegum skinkuhornum sem ljúft er að njóta á köldum dögum. Ljósmynd/Berglind Hreiðars

Nú er úti veður vont og þá er lag að gera vel við sig og sína og baka eitthvað ljúffengt til að ylja sér við. Berglind Hreiðars köku- og matarbloggari með meiru sem heldur úti síðunni Gotterí og gersemar er snillingur þegar kemur að því að töfra fram ljúffengar kræsingar sem tekur ekki langan tíma að gera og allir ráða við. Þessa uppskrift af skinkuhornum er að finna á síðunni hennar og það er freistandi að baka þessi og njóta meðan veðurguðirnir leika okkur grátt. 

Ég smakkaði þessi skinkuhorn fyrir nokkrum árum hjá Lukku vinkonu minni og hef bakað þau óteljandi oft síðan. Ég hef ekki leitað eftir annarri uppskrift því þessi er einfaldlega svo góð og einföld að mér þykir þess ekki þurfa,“ segir Berglind.

Skinkuhorn

  • 100 g smjörlíki
  • ½  l mjólk
  • 1 pk. þurrger
  • 60 g sykur
  • ½  tsk. salt
  • 800 g hveiti
  • 2 pk. skinkumyrja
  • Nokkrar ostsneiðar (c.a 1/5 sneið í hvert horn)
  • Sesamfræ (til að setja ofan á)

 Aðferð:

1. Setjið öll þurrefnin saman í skál nema þurrgerið.

2. Bræðið smjörlíkið og hellið mjólkinniút íog velgið hana upp, varist að hita ekki of mikið. Setjið gerið útí mjólkurblönduna og látið standa í um 5 mínútur.

3. Hellið mjólkurblöndunni saman við þurrefnin og hnoðið í hrærivélinni með króknum eða í höndunum.

4. Látið hefast í um 30-45 mínútur með rakan klút yfir skálinni.

5. Skiptið deiginu í 6-7 hluta og fletjið hvern út eins og litla pizzu. Skerið hringinn svo niður í 8 sneiðar, setjið skinkumyrju og smá ost á hverja sneið. Rúllið upp og setjið á bökunarpappír. Gott er að snúa aðeins upp á endana svo fyllingin leki síður út.

6. Penslið með eggi og stráið sesamfræjum yfir.

7. Bakið við 200°hita í um 15 mínútur eða þar til hornin eru orðin gullinbrún líkt og myndin sýnir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert