Sælkera chia-fræ grauturinn er nostalgía Hildar

Hildur Gunnlaugsdóttir arkitekt og gleðigjafi býður upp á sælkera chia-fræ …
Hildur Gunnlaugsdóttir arkitekt og gleðigjafi býður upp á sælkera chia-fræ graut sem er hennar nostalgía. Samsett mynd

Hildur Gunnlaugs arkitekt og umhverfisfræðingur, sem þykir sniðugri en flestir á mörgum sviðum. Hún er ótrúlega frumleg þegar hún matreiðir og útbýr girnilega rétti sem erfitt er að standast. Hér sviptir hún hulunni af sínum uppáhalds morgunverði þessa dagana og skorar á nýjan viðmælanda að taka við keflinu næst og deila sinni uppáhalds uppskrift.

Hildi er margt til lista lagt og er eigandi nýstofnaðrar arkitektastofu sem ber heitið Stúdíó Jæja  ásamt Bjarka Gunnari Halldórssyni arkitekt. Þar er unnið að alls kyns arkitektaverkefnum, allt frá skipulagi að hönnun einstakra rýma. Hildur heldur úti Instagram reikningum @hvasso_heima þar sem hún deilir ýmsum ráðum og verkefnum auk þess að hún sýnir frá matargerð sinni og stundum bakstri. Þar er stundum hægt að sjá skemmtileg og frumleg ráð arkitektsins fyrir heimilið.

Elskar allt sem er feitt, salt og sætt

Aðspurð segist Hildur hafa ástríðu fyrir einfaldri matargerð þar sem hráefnalistinn er stuttur. „Helst vil ég aldrei nota meira en 5 innihaldsefni í mat og ég hef nánast aldrei tíma til þess að búa til flókinn mat. Svo fæ ég æði fyrir einhverjum einum rétt og borða nánast á hverjum einasta degi í heilan mánuð, eftir það fæ ég algjört ógeð svo kemur æðið aftur eftir nokkra mánuði eða jafnvel ár. Segja má að ég borði alltaf eins og ólétt kona sem fær æði fyrir einhverju. Innblásturinn fæ ég oftast á Instagram en algorythminn er byrjaður að þekkja mig ansi vel og sýnir mér gjarnan mjög einfalda grænmetisrétti. Annars elska ég allt sem er feitt, salt og sætt, helst allt í einu – það er best,“ segir Hildur.

Hver er þinn uppáhaldsmorgunverður sem þú ætlar að gefa uppskriftina af?

„Nýjasta æðið mitt er í raun gamalt æði sem ég er komin með aftur. Það er einmitt með aðeins 5 innihaldsefnum, sælkera chia fræ grautur sem ég elska. Þetta getur í raun verið bæði eftirréttur alveg eins og morgunmatur,“ segir Hildur sem elskar að einfalda hlutina.

Hvern viltu skora á að vera næstan í röðinni og svipta hulunni af sínum uppáhalds morgunverði? 

„Ég skora á Guðrúnu Ýr Eðvaldsdóttur matarbloggara sem er með Instagram reikninginn Döðlur og smjör að svipta hulunni af sínum uppáhalds morgunverð næst,“ segir Hildur.

Sælkera chia-fræ grautur

  • 80 g chia-fræ
  • 400 ml möndlumjólk
  • 60 g kasjúhnetur, saxaðar
  • 10 g dökkt súkkulaði, saxað
  • 1 meðalstórt epli, skorið smátt (rautt eða bleikt)

Aðferð:

1. Byrjið á því að blanda saman chia-fræjum og möndlumjólkinni í skál.

2. Hrærið vel til að tryggja að öll fræin séu vætt.

3. Látið blönduna standa í 10 mínútur, hrærið af og til til að koma í veg fyrir að hún klessist.

4. Eftir 10 mínútur skulu þið hræra vel í chia-fræ blöndunni til að brjóta upp allar kekkjar sem kunna að hafa myndast.

5. Hyljið skálina og geymið hana í kæli yfir nótt eða í að minnsta kosti 4 klukkustundir til að leyfa chia-fræjunum að draga í sig vökvann og þykkna.

6. Daginn eftir eða um morguninn skulu þið taka út kælda grautinn úr kæliskápnum.

7. Hrærið vel í grautnum.

8. Bætið við söxuðum eplum og kasjúhnetum og dökku súkkulaði í chia-fræ grautinn.

9. Blandið öllu varlega saman þar til innihaldsefnunum er dreift jafnt.

10. Setjið grautinn í nokkrar litlar krukkar eða í skálar.

11. Skreytið toppinn með auka eplum, kasjúhnetum og dökku súkkulaði.

12. Njótið dýrindis chia-fræ grautins strax, eða geymið í kæli í allt að 2 daga. Grauturinn mun halda áfram að þykkna aðeins á meðan.

mbl.is