Ljúffengur og fjölskylduvænn vikumatseðill Örnu Maríu

Arna María Hálfdánardóttir markaðsstjóri hefur gaman að því að dunda …
Arna María Hálfdánardóttir markaðsstjóri hefur gaman að því að dunda sér í eldhúsinu og fara eftir uppskriftum. Hún býður upp á vikumatseðilinn að þessu sinni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vikumatseðillinn þessa vikuna er bæði ljúffengur og fjölskylduvænn og er í boði Örnu Maríu Hálfdánardóttur markaðsstjóra hjá Örnu mjólkurvinnslu í Bolungarvík. Arna María elskar að fá uppskriftir upp í hendurnar og finnst afar þægilegt að vinna eftir þeim. Svo er hún einstaklega hrifin af ostum og rjóma í matargerð og sem er ekki skrýtið þar sem líf hennar snýst að einhverju leyti mjólkurvörur. Eitt af mörgum verkefnum hennar í vinnunni er að skoða uppskriftir og að uppfæra uppskriftir sem gleðja líkama og sál.

Arna María er Ísfirðingur en er búsett í Kópavogi með sambýlismanni sínumÁrmanni og börnunum þeirra þremur þar sem þau unna sér vel. Matartíminn og samveran við matarborðið hefur mikið gildi fyrir fjölskylduna og er þeirra gæðastund.

„Ég er týpan sem fylgi uppskriftum eftir skref fyrir skref, það hefur hentað mér best og þá get ég verið nokkuð örugg um að útkoman verði góð. Starfið mitt hjá Örnu er mjög fjölbreytt og eitt af mörgum verkefnunum mínum er að uppfæra uppskriftahlutann á heimasíðunni okkar þegar nýjar uppskriftir berast frá samstarfsaðilum okkar og þær eru hver annarri girnilegri. Svo það má segja að ég liggi yfir girnilegum uppskriftum dags daglega svo kannski ekki furða að ég er alltaf að bæta á listann minn yfir þær sem mig langar að prófa,“ segir Arna María. 

Sér alla jafna um eldamennskuna

„Mér þykir mjög skemmtilegt að dunda mér í eldhúsinu, hvort sem það er við að baka eða elda og prófa nýjar uppskriftir. Alla jafna sé ég um eldamennskuna á heimilinu en ég kem helst ekki nálægt grillinu, ég læt manninn minn alfarið um það og sé þá frekar um meðlætið. Við erum oftast með frekar hversdagslegar uppskriftir yfir vikuna sem falla best í kramið hjá öllum fjölskyldumeðlimum og er einfalt að útbúa, enda nóg að gera á stóru heimili. Á helgum gef ég mér frekar lengri tíma til að dunda mér í eldhúsinu, sérstaklega þegar veðrið er grátt og blautt, þá finnst mér fátt notalegra en að kveikja á kertum, setja góða tónlist á og prófa mig áfram með nýjar uppskriftir ýmist í matseld eða bakstri. Það er kannski ekkert að ástæðulausu að haustið er minn uppáhaldsárstími þó ég væri vissulega til í að sumarið fari að láta sjá sig fljótlega.“

Það er nóg um að vera í kringum Örnu Maríu þessa dagana, bæði heima fyrir og í vinnunni. „Ég starfa sem markaðsstjóri hjá Örnu í Bolungarvík og dagarnir eru mjög fjölbreyttir, skemmtilegir og það eru fáir dagar eins. Það sem ber helst að nefna fyrir þessa dagana er að við erum nýbúin að setja nýja skyrlínu á markað, kaffiskyr sem við unnum í samstarfi með fyrirtækinu Te & Kaffi og er að fá frábærar viðtökur. Að sama skapi höfum við líka verið að kynna Primus próteinvatn sem er spennandi nýjung og framundan eru árstíðabundnar vörur og 10 ára afmæli Örnu í haust svo eitthvað sé nefnt. Starfið er mjög lifandi og í mörg horn að líta og nóg að gera, þannig vill ég einmitt hafa það.“

Hér gefur að líta vikumatseðilinn hennar Örnu Maríu sem er hinn ljúffengasti og uppskriftirnar hver annarri girnilegri.

Ljúffengt rjómapasta á vel við á mánudagskvöldi.
Ljúffengt rjómapasta á vel við á mánudagskvöldi. Ljósmynd/Linda Ben

Mánudagur – Ljúffengt rjómaosta pasta

„Á mánudögum erum við alla jafna með hakk og spaghetti eða einhverja hakk eða pastarétti. Krakkarnir mínir eru nánast hættir að spyrja hvað sé í matinn á mánudögum því það er orðið nokkuð föst venja og alveg hætt að koma á óvart, en okkur finnst líka þægilegt að byrja vikuna á einhverju einföldu og klassísku, við erum lítið í því að flækja hlutina. Þetta rjómaosta pennepasta er virkilega ljúffengt og við höfum stundum bætt hakki saman við.“

Rjómaosta pennepasta 

Djúsí og litríkt fajtas gleður bæði auga og munn.
Djúsí og litríkt fajtas gleður bæði auga og munn. Ljósmynd/Linda Ben

Þriðjudagur – Litríkt taco með djúsí ostahakki

Fajtas og taco slær alltaf í gegn, þetta ostahakk er skemmtileg tilbreyting og alltaf gott, hef prófað það líka með öðrum útfærslum og það klikkar aldrei.“

Litríkt taco með djúsí ostahakki

Steiktur í fiskur í ofni er klassískur og góður réttur …
Steiktur í fiskur í ofni er klassískur og góður réttur sem allir í fjölskyldunni elska. Ljósmynd/Svava

Miðvikudagur – Steiktur fiskur í ofni

„Við erum ekkert að flækja hlutina þegar kemur að því að hafa fisk í matinn. Okkur manninum mínum þykir gaman að prófa nýja og spennandi fiskrétti en krakkarnir eru hrifnastir af því einfalda og því hefur þessi uppskrift verið notuð mjög reglulega og klikkar aldrei.“

Klassískur og góður steiktur fiskur í ofni

Matcha skyrskál sem sælkera ívafi er girnilegur fimmtudagsréttur.
Matcha skyrskál sem sælkera ívafi er girnilegur fimmtudagsréttur. Ljósmynd/Linda Ben

Fimmtudagur- Matcha skyrskál

„Við tökum oftast að minnsta kosti einn dag í viku þar sem við erum með léttan kvöldmat. Oftar en ekki hendum við í skyrskálar í alls konar útfærslum, þar sem þær eru alltaf vinsælar hjá öllum á heimilinu.“

Föstudagskvöld eru pitsakvöld hjá mörgum fjölskydum og þessi hér lítur …
Föstudagskvöld eru pitsakvöld hjá mörgum fjölskydum og þessi hér lítur vel út. Ljósmynd/Linda Ben

Föstudagur- Pítsakvöld

„Föstudagar eru pitsadagar á heimilinu. Bland af klassísku pitsum og mismunandi uppskriftum og samsetningum.“

Fylltar kjúklingabringur í rjómaostasósu er ómótstæðilega góðar og erfit að …
Fylltar kjúklingabringur í rjómaostasósu er ómótstæðilega góðar og erfit að standast. Ljósmynd/Linda Ben

Laugardagur – Dýrðlegar ostafylltar kjúklingabringur

„Þessar ostafylltu kjúklingabringur svíkja aldrei, enda veit ég fátt betra en osta og rjóma í matargerð, orðatiltækið „Það að verður alltaf allt betra með smá slettu af rjóma" er eitthvað sem ég tengi fast við.“

Nýbakaðari snúðar sem eru bæði mjólkur- og eggjalausir með löðrandi …
Nýbakaðari snúðar sem eru bæði mjólkur- og eggjalausir með löðrandi glassúr eru fullkomnir með sunnudagskaffinu. Ljósmynd/Linda Ben

Sunnudagur – Mjúkir sælkerasnúðar með glassúr

„Mér finnst mjög skemmtilegt að baka og prófa nýjar uppskriftir, ég prófaði þessa snúða fyrst í annarri útgáfu frá Lindu árið 2020 og svo aftur núna eftir að hún gerði þessa uppskrift með hafrajógúrtinu frá Veru og útkoman alls ekki síðri. Get alveg hiklaust mælt með þeim.“

Mjúkir snúðar með glassúr 

mbl.is