Austurlensk kjúklingaspjót og sataysósa á veisluborðið

Ómótstæðilega ljúffeng kjúklingaspjót með sataysósu á austurlenska vísu.
Ómótstæðilega ljúffeng kjúklingaspjót með sataysósu á austurlenska vísu. Samsett mynd

Austurlensk matargerð býður upp á ævintýralegt ferðalag fyrir bragðlaukana og ekkert er skemmtilegra en að koma gestum á óvart með sælkeraréttum sem töfra þá upp úr skónum. Leyndardómurinn bak við sataysósuna er bragðið og natnin við gerð hennar og kjúklingaspjót þar sem kjúklingurinn er maríneraður upp úr karríi og hvítlauk steinliggja með sataysósunni. Þessi uppskrift er einstaklega góð og matargestirnir þínir munu elska þennan rétt.

Gaman að bera kjúklingaspjótin, sataysósuna skemmtilega fram á fallegu viðarbretti …
Gaman að bera kjúklingaspjótin, sataysósuna skemmtilega fram á fallegu viðarbretti og vera með gott meðlæti eins og núðlur, edamame baunir og grænmeti. Ljósmynd/Aðsend

Austurlensk kjúklingaspjót

 • 1 p kjúklingalundir
 • ½ bolli ólífuolía
 • 2-3 litlir hvítlaukar í körfunum
 • 2 tsk. karrí 

Aðferð:

 1. Byrjið á því að saxa niður hvítlaukana.
 2. Blandið saxaða hvítlaukunum og karríkryddinu saman við ólífuolíuna.
 3. Leggið lundirnar í ólífuolíublönduna með hvítlauk og karríi í eldfast mót eða fat og látið liggja þar í 1 til 2 klukkustundir.
 4. Þerrið lundirnar eftir maríneringuna og þræðið upp á grillspjót eða grillpinna.
 5. Grillið eða steikið á pönnu á háum hita. Tekur ekki langan tíma, sjáið þegar kjúklingurinn verður fallega gulbrúnn á lit.

Sataysósa

 • 200 g hnetur
 • 2 laukar
 • 2 litlir hvítlaukar í körfunum
 • 10 sentímetra stilkur sítrónugras
 • 3 msk. tómatpúrra
 • 2 tsk. chilikrydd
 • 2 tsk. hvítlaukskrydd
 • 2 tsk. túrmerik
 • 4 msk. sykur
 • 1 dós kókosmjólk (lífræn)
 • 2 bollar ólífuolía
 • kjúklingakraftur eftir smekk
 • ólífuolía eftir smekk til steikingar

Aðferð:

1. Byrjið á því að brúna hneturnar á pönnu upp úr ólífuolíu.

2. Kælið hneturnar og malið gróft í matvinnsluvél, takið til hliðar.

3. Setjið lauk, hvítlauk og sítrónugras í matvinnsluvélina og saxið smátt.

4. Setjið síðan söxuðu laukana ásamt sítrónugrasi í pott ásamt 2 bollum af ólífuolíu og látið krauma við vægan hita þar til að blandan verður ljósbrún á litinn.

5. Bætið þá saman við tómatpúrru, chili- og hvítlaukskryddi, túrmerik, sykri og kókoshnetumjólk.

6. Látið malla og bætið síðan við hnetunum og látið malla í stutta stund.

7. Bætið loks við kjúklingakrafti eftir smekk og látið sósuna krauma í 10 til 15 mínútur við lágan hita.

8. Berið sósuna fram með kjúklingaspjótunum.

9. Gaman er að raða spjótunum á fallegt bretti eða bakka og skreyta með vorlauk, selleríi og agúrkum sem búið er að skera í bita. Gott með þessum rétti.

Kjúklingaspjótin tekur skamma stund að útbúa.
Kjúklingaspjótin tekur skamma stund að útbúa. Ljósmynd/Aðsend

 

mbl.is