Gómsætar bananamúffur

Gómsætar banana muffins kökurnar hjá Hildi Rut.
Gómsætar banana muffins kökurnar hjá Hildi Rut. Ljósmynd/Hildur Rut Ingimars

Á köldum rigningardögum er ljúft að baka eitthvað sem gleður sálina og yljar. Hildur Rut Ingimarsdóttir, sem heldur úti matarbloggi á lífsstílssíðunni Trendnet og er með instagramreikninginn @hildurrutingimars, deildi þessari ljúffengu uppskrift af bananamúffum sem geta ekki klikkað. Eins og hún segir sjálf eru þessar gómsætar með banönum, kanil, haframjöli, súkkulaði og fleira góðu. Tekur enga stund að skella í þessar og allir eiga eftir að elska þessar þegar þær koma úr ofninum.

Gómsætar bananamúffur

  • U.þ.b. 12 múffur
  • 100 g smjör, brætt
  • ½ dl hunang
  • 2 tsk. vanilludropar
  • 2 egg
  • 3 þroskaðir bananar, stappaðir
  • ½ dl mjólk
  • 1 dl haframjöl
  • 3 dl fínt spelt
  • ½ tsk. kanill
  • 2 tsk. lyftiduft
  • ½  tsk. matarsódi
  • 150 g suðusúkkulaði
  • Kurl
  • 3 msk. kalt smjör
  • 2 dl haframjöl
  • 2 msk. fínt spelt

Aðferð:

  1. Byrjið á því að hita ofninn í 180°C með blæstri.
  2. Skerið súkkulaðið í litla bita og stappið banana.
  3. Blandið saman bræddu smjöri, hunangi og vanilludropum.
  4. Bætið svo saman við eggjum, banönum og mjólk.
  5. Því næst hrærið þið haframjöli, spelti, kanil, lyftidufti og matarsóda saman við.
  6. Bætið súkkulaðinu varlega saman við allt.
  7. Dreifið deiginu í 12 múffuform.
  8. Notið hendurnar í það að blanda saman í kurl köldu smjöri, haframjöli og spelti.
  9. Dreifið kurlinu jafnt yfir múffudeigið og bakið í ofni í 20 mínútur við 180°C á blæstri. Mér finnst gott að stinga í þær með tannstöngli til að sjá hvort þær eru fullbakaðar og svo bara njóta.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert