Súkkulaðigerðarmaðurinn sviptir hulunni af sínum uppáhaldsísrétti

Kjartan Gíslason matreiðslumeistari og súkkulaðigerðarmaður hjá Omnom með meiru, sviptir …
Kjartan Gíslason matreiðslumeistari og súkkulaðigerðarmaður hjá Omnom með meiru, sviptir hulunni af sínum uppáhaldsísrétt. mbl.is/Eyþór Árnason

Kjartan Gíslason, matreiðslumaður og súkkulaðigerðarmaður hjá súkkulaðigerðinni Omnom, hefur ávallt haft mikinn áhuga á mat, matargerð og bakstri. Síðustu ár hafa leyndardómar súkkulaðisins átt huga hans allan og hefur Kjartan blómstrað í gerð ísrétta sem eru líka ljúffengir eftirréttir. Í tilefni þess að sumarið er að gægjast inn og sjómannadagurinn er fram undan, sviptir Kjartan hulunni af sínum uppáhaldsísrétti og uppskriftinni.

„Ég lærði matreiðslumanninn fyrir nær 30 árum síðan og starfaði sem slíkur í nær 20 ár, hér heima og erlendis, áður en súkkulaðidraumurinn varð að veruleika. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á öllu sem við kemur mat og matargerð. Bakstur og eftirréttagerð heillaði mig sérstaklega, þar sem það er svo mikið af tæknilegum atriðum sem þarf að framkvæma nákvæmt svo að vel gangi, einnig hef ég líka mjög gaman af allri sögu matvæla, hefðum og menningu í kringum þau, og við súkkulaðið tikkaði það í öll boxin fyrir mig, þar sem þetta leyndardómsfulla hráefni er svo magnað,“ segir Kjartan.

Útlitið líflegt og skemmtilegt

Ísbúð Omnom hefur notið mikilla vinsælda og er fræg fyrir föngulega ísrétti sem heita ævintýralegum nöfnum en allir ísréttirnir eiga sér sögu. „Þegar við byrjuðum með ísbúðina, þá vildi ég vinna að sjálfsögðu með súkkulaðið okkar sem aðalhráefni, en að bæta við fleiri brögðum sem pössuðu með því, sem og að hafa útlitið líflegt og skemmtilegt. Kolkrabbinn er dýrið sem er á umbúðunum fyrir lakkríssúkkulaðið okkar og tengingin við hafið er saltið sem við notum í blönduna okkar. Saltur lakkrís parast vel með einhverju súru og ákváðum við að nota hindber, sem tóna rosalega vel með honum, við notum frostþurrkuð hindber sem við hjúpum í lakkríssúkkulaði og búum einnig til hlaup úr hindberjum, sem minna á súrt gúmmí úr nammibarnum, þetta blandast svo með leyni-lakkríssósunni okkar sem er búin til með súkkulaðinu okkar og loks toppað með kolkrabbaörmum. Við létum 3D prenta fyrir okkur sérstök útstungujárn til að ná hönnuninni réttri.“

Súkkulaði í alla réttina

Súkkulaðið er ávallt í forgrunni og er það sem gerir ísréttina að því sem þeir eru. „Fyrir alla ísréttina okkar notum við okkar eigin súkkulaði sem grunn og þar byrja hugmyndirnar að fæðast, og velta fyrir okkur hvaða brögð parast saman. Ég vinn náið með „pastry chefnum“ okkar, Aisuluu Shatmanova, sem undirbýr allar sósur, kex og skraut frá grunni, í að þróa nýja rétti. Sumir réttir hafa bara tekið viku í þróun meðan aðrir hafa tekið allt upp í tvö ár að verða að veruleika,“ segir Kjartan.

Aðspurður segist Kjartan eiga sinn uppáhaldsísrétt. „Minn uppáhalds á seðlinum núna er Hunangsflugan, sem er með hunangsristuðum kornflögum og súkkulaðisósu með mjólkursúkkulaði og hunangi,“ segir Kjartan og er þegar farinn í hugarflug að þróa fleiri ísrétti. „Annars erum við alltaf að vinna að nýjum réttum og vonandi náum við að kynna einn til sögunnar í sumar,“ segir Kjartan að lokum og sviptir hér hulunni af leyndardómsfullu uppskriftinni af Hunangsflugunni. „Þetta er mjög einfaldur réttur með smá undirbúningi, ef ekki á að nota kornflögurnar strax er gott að geyma þær í lokuðu boxi svo þær haldi stökkleikanum. Berið síðan fram með góðum vanilluís.“ 

Hunangsflugan er uppáhaldsísrétturinn hans Kjartans og er ótrúlega girnirleg.
Hunangsflugan er uppáhaldsísrétturinn hans Kjartans og er ótrúlega girnirleg. mbl.is/Eyþór Árnason

Hunangsflugan

Hunangsristaðar kornflögur

  • 250 g kornflögur
  • 150 g hunang
  • 40 g smjör
  • 2 g salt

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 130°C.
  2. Setjið hunang í pott og hitið þar til það fer að sjóða.
  3. Bætið við smjöri og salti og hrærið saman.
  4. Setjið kornflögur í skál og blandið vel saman við hunangsblönduna.
  5. Hellið flögunum á bökunarplötu með bökunarpappír og bakið í 10-15 mínútur.
  6. Leyfið flögunum að kólna á bakkanum og brjótið svo í minni einingar eftir smekk.

Hunangs-súkkulaðisósa

  • 250 g rjómi
  • 150 g sykur
  • 60 g hunang
  • 2 g salt
  • 60 g Dark milk of Tanzania súkkulaði, saxað
  1. Aðferð:
  2. Hitið rjóma ásamt sykri, hunangi og salti í potti að suðu.
  3. Slökkvið á hellunni, bætið súkkulaðinu við og blandið vel saman.
  4. Sigtið og kælið eða berið strax fram með góðum vanilluís.
Kolbrabbinn er ævintýralegur í útliti, súkkulaðiarmarnir fanga bæði auga og …
Kolbrabbinn er ævintýralegur í útliti, súkkulaðiarmarnir fanga bæði auga og munn. Hann á tengingu við hafið. mbl.is/Eyþór Árnason
Lokkandi fyrir augað þessi fallegu ísréttir sem bjóða bragðlaukunum upp …
Lokkandi fyrir augað þessi fallegu ísréttir sem bjóða bragðlaukunum upp á ævintýri. mbl.is/Eyþór Árnason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert