Dýrðlegur sumareftirréttur

Frískandi og sumarlegi eftirrétturinn hennar Guðrúnar Erlu Guðjónsdóttur á án …
Frískandi og sumarlegi eftirrétturinn hennar Guðrúnar Erlu Guðjónsdóttur á án efa eftir að slá í gegn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Frískandi og sumarlegur eftirréttur freistar margra með hækkandi sól og sumri. Guðrún Erla Guðjónsdóttir bakari sem kom, sá og sigraði í keppninni um köku ársins í ár, einungis 22 ára gömul, veit fátt skemmtilegra en að útbúa ljúffenga eftirrétti sem gleðja bæði augu og munn. Hún segir sumarið vera tímann fyrir eitthvað frískandi. Hún sviptir hér hulunni af sínum uppáhaldssumareftirrétti sem á án efa eftir að slá í gegn. Guðrún Erla hefur mikla ástríðu fyrir því að vinna sem konditor, búa til fínlega og fallega rétti og kökur og ætlar að mennta sig frekar úti í Danmörku. „Ég verð að læra konditor næstu mánuði. Þar ætla ég að læra meira um eftirréttagerð og hvernig maður á að vinna með súkkulaði. Við eigum líka eftir að læra um sykurskúlptúr og hvernig vinna á rétt með sykur.

Ég hef alltaf haft meira gaman af eftirréttagerð, en ákvað samt að læra bakarann fyrst, þar sem ég hef líka mjög mikinn áhuga á brauðbakstri,“ segir Guðrún Erla.

Elskar að baka og dúllast í eldhúsinu

„Ég hef alltaf elskað að baka og gera alls konar inn í eldhúsi. Þetta er líka svolítið heilagt fyrir mér, að fá að vera ein inn í eldhúsi og hlusta á góða tónlist. Ég get endalaust dúllað mér inni í eldhúsi, og elska að prófa nýjar uppskriftir.“ Þegar Guðrún Erla er spurð hver hennar eftirlætiseftirréttur er, stendur ekki á svörum. „Ég elska að fá nýbakaða eplaböku, með vanilluís og góðri karamellusósu.“ Með hækkandi sól og sumri finnst Guðrún Erlu mjög gott að fá sér frískandi eftirrétt þar sem bragðtegundirnar spila saman og lyfta hver annarri á hærra stig. Hennar uppáhaldssumareftirréttur í ár á sér sögu. „Vinkona mín, sem er konditor, gaf mér uppskriftina að súkkulaðimúsinni, og síðan þá er þetta sú súkkulaðimús sem ég geri eiginlega alltaf. Hún er svo einföld og passar í bæði tertu- og eftirréttagerð. Rétturinn ber heitið Sumareftirréttur með limoncello í glasi og steinliggur í næsta sumarpartíi.“

Hægt er að fylgjast með Guðrúnu Erlu og náminu hennar á Instagraminu hennar:
@gudrunerla2000.

Konditorí í Kaupmannahöfn Guðrún Erla bakari hyggur á framhaldsnám í …
Konditorí í Kaupmannahöfn Guðrún Erla bakari hyggur á framhaldsnám í konditori í Danmörku og hefur mikla ástríðu fyrir því að búa til eftirrétti og aðra fallega rétti sem fanga auga og munn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sumareftirréttur með limoncello í glasi

Fyrir 4

 • Kurl í botninn
 • 150 g hveiti
 • 25 g sykur
 • 50 g Odense-marsípan
 • 20 g möndlur
 • 90 g smjör

Aðferð:

 1. Blandið hveiti, sykri og marsípani saman í skál. Hakkið möndlurnar vel og setjið út í.
 2. Bræðið síðan smjörið og hellið yfir og blandið saman i höndunum.
 3. Stráið þessu á bökunarpappírsklædda plötu og bakið í ofni við 180°C í 10 til 15 mínútur.

Mús

 • 50 g rjómi
 • 2 stk. matarlímsblöð
 • 100 g hvítt súkkulaði
 • 100 g léttþeyttur rjómi
 • 5 g vanilludropar

Aðferð:

 1. Leggið matarlím í bleyti.
 2. Hitið mjólkina að suðu og setjið matarlímið út í, hellið svo yfir súkkulaðið og blandið vel saman.
 3. Léttþeytið rjóma og blandið við súkkulaðið þegar það er komið í 38°C.

Limoncello-hlaup

 • 125 g Limoncello
 • 1 msk. sykur
 • 2 tsk. sítrónusafi
 • 2 tsk. sítrónubörkur
 • 1 msk. kartöflumjöl
 • 1 msk. vatn

Aðferð:

 1. Sjóðið Limoncello, börkinn og sykur i pönnu.
 2. Blandið kartöflumjöli og vatni saman í skál og hrærið saman þar til kekkjalaust. Hellið kartöflumjölssoppunni út í Limoncello og hrærið vel saman. Hellið sítrónusafa út í og hrærið vel saman.

Samsetning:

1. Setjið kurlið í botninn á glasinu, passið að það sé jafnt. Þegar músin er tilbúin, er henni hellt varlega í glösin, en ekki alveg upp að brún glassins.

2. Leyfið þessu að frjósa í sólarhring.

3. Þegar eftirrétturinn er gegnfrosinn, er sítrónuhlaupinu smurt yfir músina.

4. Rétturinn er síðan skreyttur með ferskum berjum og sítrónuberki.

5. Látið standa á borðinu í klukkutíma og þiðna áður en hann er borinn fram.

Þessi eftirréttur er algjört lostæti og steinliggur í næsta boði.
Þessi eftirréttur er algjört lostæti og steinliggur í næsta boði. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: