Ekta íslenskar skonsur með súkkulaði og bláberjum

Guðdómlegar nýbakaðar skonsur bornar fram með bræddu súkkulaði og bláberjum …
Guðdómlegar nýbakaðar skonsur bornar fram með bræddu súkkulaði og bláberjum eða með því sem þér þykir best. Samsett mynd

Helgarnar eru til að njóta með sínum allra bestu og útbúa ljúffengan dögurð. Fátt er betra en lokkandi ilmur úr eldhúsinu af nýbökuðum skonsum, súkkulaði og ferskum ávöxtum. Hér er á ferðinni uppskrift að ekta íslenskum skonsum úr uppskriftabók ömmu eins og þær gerast bestar og tekur örskamma stund að útbúa. Það er hægt að leika sér með stærðina á þeim og leyfa sér að hafa fjölbreytni í því sem sett er á þær. Til dæmis er ótrúlega ljúffengt að bera þær fram með bræddu súkkulaði að eigin vali og bláberjum og strá örlítið af flórsykri yfir þær. Það er líka hægt að fá sér fersk jarðarber og banana ofan á þær, hver og einn ætti að velja sér það sem honum finnst best. 

Nú er bara að vinda sér í baksturinn og útbúa sælkera skonsur og njóta. 

Íslenskar skonsur úr uppskriftabók ömmu

  • 2 bollar hveiti
  • 2 bollar mjólk (má líka vera kókosmjólk)
  • 2 egg
  • 2 tsk. lyftiduft
  • 1 tsk. vanilludropar
  • ¼ tsk. salt
  • Smjör á pönnuna fyrir baksturinn

Aðferð:

1. Byrjið á því að blanda saman þurrefnunum hveiti, lyftidufti og salti.

2. Bætið við eggjum, vanilludropum og mjólkinni smátt og smátt saman við.

3. Hrærið þar til deigið verður kekkjalaust.

4. Deigið á að vera fislétt og með fallegri áferð en varist að hræra of mikið svo skonsurnar verði ekki seigar.

5. Hitið pönnukökupönnu á hellu á góðum hita fyrir bakstur.

6. Setjið deigið á pönnukökupönnuna með millistærð af ausu og miðið við að geta bakað tvær skonsur í einu. Það er fullkomin stærð fyrir þessar skonsur.

7. Berið skonsurnar fram með öllu því sem hugurinn girnist, ferskum berjum og ávöxtum, bræddu súkkulaði, nutella, sykurlausri súkkulaðismyrju eða sírópi og hvaðeina sem ykkur þykir gott að setja á skonsurnar og njóta.

8. Mörgum finnst líka gott að smyrja þær með smjöri og fá sér ost ofan á.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert