Helmingur hækkaði verðið

Hamborgari og franskar.
Hamborgari og franskar. mbl.is/

Fimm af tíu hamborgarastöðum sem Morgunblaðið kannaði verð hjá hafa hækkað verðið síðustu þrjá mánuði.

Um miðjan febrúar var birt óformleg könnun í blaðinu sem leiddi í ljós að algengt verð á hamborgaramáltíð á veitingastöðum á höfuðborgarsvæðinu var í kringum þrjú þúsund krónur. Síðan þá hefur verðið verið hækkað á helmingi staðanna og mesta hækkunin nemur 12,4%.

Kannað var verð hjá tíu veitingastöðum sem sérhæfa sig í hamborgurum og bjóða upp á að gestir geti sest niður og notið matarins. Flestir eru með fulla þjónustu. Sjoppur og staðir sem leggja mesta áherslu á að fólk taki matinn með sér heim voru ekki tekin til greina. Leitast var við að finna einföldustu leiðina að því að fá ostborgara, franskar og kók. Auk þess er mjög auðvelt að finna mun dýrari hamborgaramáltíðir á umræddum stöðum ef fólk kýs annað en hefðbundinn ostborgara.

Kort/mbl.is

Þeir fimm staðir sem hækkað hafa verðið eru American Style, Craft Burger Kitchen, Hamborgarabúllan, Plan B Smassburger og Tasty þar sem verðið hafði hækkað mest, um 12,4%. Næstmesta hækkunin var hjá Plan B, 8,4%. Athygli vekur að Hamborgarabúllan hefur frá því í febrúar hækkað verðið í tvígang. Nú um mánaðamótin var það hækkað um 100 krónur.

Hamborgarafabrikkan býður áfram dýrustu máltíðina, 3.468 krónur, en ódýrasta máltíðin fæst hjá Dirty Burger & ribs, 2.090 krónur. Sú máltíð er næstum því þrisvar sinnum ódýrari en dýrasta hamborgaramáltíð landsins. Hana er að finna á Kastrup við Hverfisgötu og kostar 5.890 krónur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina