Gurrý ljóstrar upp sínum mögnuðu matarvenjum

Unnur Guðríður Indriðadóttir, ávallt kölluð Gurrý, afhjúpar hér öllum leyndarmálum …
Unnur Guðríður Indriðadóttir, ávallt kölluð Gurrý, afhjúpar hér öllum leyndarmálum sínum um matarvenjur sínar og meira til. mbl.is/Arnþór Birkisson

Unnur Guðríður Indriðadóttir, ávallt kölluð Gurrý, einn af eigendum Lemon og elskar mat og elska að stússast í mat. Gurrý ljóstrar hér upp matarvenjum sínum og fleiru skemmtilegu en eins og hjá mörgum þá er matur stór partur af lífi hennar. Hún er líka dugleg að setja sér markmið og gengur beint til verks til að ná þeim og á sér óskalista hvert hana langar að fara og prófa nýja matarupplifun.

Eins áður sagði þá elskar Gurrý að stússast í mat. „Þó svo ég borði mjög einhæfan mat dagsdaglega. Ég finn bara hvað það skiptir miklu máli að borða rétt og borða reglulega. Ef ég geri það ekki þá verð ég orkuminni. Mér finnst gaman að hreyfa mig og finnst mikilvægt að hafa eitthvað fyrir stafni. Hreyfi mig eitthvað á hverjum degi.  Ég er sjúk í markmiðasetningu en hún drífur mig oft áfram í því sem ég er að gera. Á síðasta ári varð ég 50 ára og setti mér þá markmið að fara 50 ferðir upp á Helgafell, auðvitað tókst það og meira til. Núna í júní setti ég mér nokkur markmið, ég er að safna kílómetrum og ég ætla að taka 1000 magaæfingar og labba að minnsta kosti 10.000 skref á dag. Svo að fara í golf tvisvar í viku. Sé að það verður ekkert að gera hjá mér í júní,“ segir Gurrý og hlær.

Borða yfirleitt það sama dag eftir dag

„Dagsdaglega þá hef ég mjög einfaldan matarsmekk, ég borða yfirleitt það sama dag eftir dag. Breyti ekki mikið til og finnst þægilegt að undirbúa daginn fyrirfram. Það má segja að ég borði til að fá bensín yfir daginn en svo elska ég að borða góðan mat og gef mér oft mikinn tíma til að stússast í eldhúsinu, en það er yfirleitt ekki tími í það nema um helgar.

Fólkið mitt segir mig stundum matsára og þá sérstaklega þegar kemur að því að panta mat á veitingastöðum. Panta yfirleitt það sama og hinir eða er búin að græja það þannig að það sé hægt að deila,“ segir Gurrý.

Eitt af þessu þrennu

Þegar kemur að morgunmatnum segist Gurrý ávallt borða hann. „Ég vakna alltaf mjög snemma og verð alltaf að fá mér morgunmat. Ég fæ mér alltaf eitt af þessu þrennu, nema ef ég er á hóteli, þá treð ég í mig allskonar gúmmúlaði. Oftast fæ ég mér fræga hafra- og chia grautinn minn. Hann er svo einfaldur, bara hafrar, chia, kanill og möndlumjólk. Sett inn í ísskáp á kvöldin og er klárt daginn eftir. Það er annað sem ég elska jafn mikið og grautinn en það er morgunverðarskálin mín, Cheerios, All bran og Hleðsla, það er ómótstæðilega gott. Það þriðja sem ég elska líka er próteindrykkur, yfirleitt fæ ég mér „Call me Crazy“ á Lemon en núna er ég komin með nýjan uppáhaldspróteindrykk þar, „Power Plant“. Eitt af þessu þrennu fyrir hádegi og ég á góðan dag.“

Aðspurð segist Gurrý líka borða á milli mála. „Ég fæ mér alltaf eitthvað í millimál, ef ég verð of svöng þá fæ ég mikla sykurþörf og enda þá á því að fá mér eitthvað sem ég sé eftir. Í milli mál reyni að fá mér eitthvað þægilegt sem ég get skutlað í mig, því ég er mikið á ferðinni og þá er mikilvægt að hafa eitthvað við höndina sem er hægt að fá sér. Ég fæ mér oftast banana, flatköku með osti eða próteinpönnuköku. Ef ég hef tíma þá sker ég niður epli og fæ mér epli með hnetusmjöri eða hrökkbrauð með túnfisksalati.“

Hádegisverðurinn ómissandi

Fyrir Gurrý er hádegisverðurinn ómissandi. „Ég verð að fá mér hádegismat. Ef ekki þá myndi ég ekki ná að klára vinnudaginn. Ég fæ mér oftast litla Mozzato á Lemon, þar sem ég kíki oftast á einhvern Lemon stað í hádeginu. Mér finnst alltaf gott að fara á milli staða á hverjum degi og fá mér að borða þar og segja  við starfsfólkið. Ef ég fæ mér ekki Lemon þá er mitt „go to“ eggjakaka í tortillu, helst bara hvítur. Uppskriftin fékk ég hjá Helgu Möggu sem heldur úti uppskriftasíðunni Helga Magga.is, elska þessa samsetningu.“

Nokkrar staðreyndir um matarvenjur og óskalisti Gurrýjar - Æði fyrir bleikri stjörnurúllu

Hvað áttu alltaf til í ísskápnum?

Ég á alltaf til kotasælu, hleðslu, möndlumjólk, rjómaost, kjúklingaálegg, ost, egg og kristal, með þetta í skápnum þá er ég góð.“

Uppáhaldsgrillmaturinn þinn?

„Ef ég vil góðan grillmat þá fer ég í Kjötkompaní, mér finnst allt gott þar. En uppáhaldið mitt þar er nautalund delux með sætkartöflusalati, aspas, fersku salati, grilluðum maís og kaldri sósu sem heitir Steikarsósa hjá þeim.“ 

Þegar þú ætlar að gera vel við þig og velur veitingastað til að fara á hvert ferðu?

„Ég er alltaf til í að fara á Jómfrúnna, veit fátt betra en gott smurbrauð og ekki verra að fá einn bjór með. En svo uppgötvaði ég nýjan stað um daginn sem heitir Ráðagerði, hann er frábær og ég gæti farið þangað aftur og aftur eins og á Jómfrúnna.“ 

Er einhver veitingastaður úti í heimi sem er á  óskalistanum yfir þá staði sem þú verður að heimsækja?

„Það er ekki neinn ákveðinn staður, þegar ég er erlendis þá finnst mér skemmtilegast að detta inn á einhvern stað, helst „local“ staði. Á mínum óskalista er að fara til Sri Lanka og prófa matinn þar og upplifa matarmenningu sem þar er. Það eru nokkrir aðilar að vinna á Lemon frá Sri Lanka og maturinn sem þau gera er mjög góður. Þau hafa einnig sagt mér frá nokkrum frábærum veitingastöðum þar. Þannig að ég bíð spennt.“

Uppáhaldskokkurinn þinn?

„Það er alltaf gaman að fara í mat til Fíu, samstarfskonu og meðeiganda á Lemon, Hún er einn af mínum uppáhaldskokkum. Svo eru Gísli og Sóley, börnin mín, ótrúlega góð í eldhúsinu.“

Uppáhaldsdrykkurinn þinn?

„Klárlega sódavatn, en svo kemur kampavín þar fast á eftir.“

Ertu góður kokkur?

„Já, mér finnst mjög gaman að elda og er nokkuð góður kokkur. Ég hef einu sinni gert vondan mat og það gleymist seint. Krakkarnir rifja það oft upp þegar við borðum saman: „Mamma manstu þegar þú gerðir réttinn...“ Í eldhúsinu fæ ég rólega tímann minn, slekk á tölvunni, hlusta á tónlist og slaka á. Ákveðin núvitund.“

Uppáhalds eftir kvöldmatinn?

„Ég er með æði fyrir stjörnurúllu. Eftir kvöldmatinn þá langar mig  oft í eitthvað sætt og þá veit ég ekkert betra en að fá mér eina bleika stjörnurúllu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert