Sumarlegt salat með smjörsteiktum perum og brie osti

Sumarlegt salat með smjörsteiktum perum og brie osti sem þú …
Sumarlegt salat með smjörsteiktum perum og brie osti sem þú átt eftir að elska. Ljósmynd/Berglind Hreiðars

Hér kemur ekta sumarlegt salat sem þú átt eftir að elska. Þessa uppskrift birti Berglind Hreiðars köku- og matarbloggari á uppskriftasíðunni sinni Gotterí og gersemar á dögunum. Berglind segir að vinkona sín Harpa Ólafsdóttir matargúrú með meiru eigi heiðurinn af þessu salati. „Við buðum upp á þetta með grillmat um daginn og fólk var alveg að missa sig yfir þessu,“ segir Berglind. Nú er lag að prófa og athuga hvort þetta sumarlega salati slái ekki í gegn í næsta grillpartíi.

Salat með smjörsteiktum perum og brie osti

  • 1 poki klettasalat
  • 1stór pera (eða 2 litlar)
  • 1 Dala brie ostur frá Gott í matinn
  • Um 20 g smjör
  • Ein lúka pistasíukjarnar
  • Hunang eftir smekk
  • Balsamik gljái eftir smekk 

Aðferð:

1. Hellið klettasalatinu á disk/fat.

2. Skerið peruna í teninga og steikið upp úr smjöri við vægan hita þar til bitarnir fara að mýkjast, takið þá af pönnunni og stráið yfir klettasalatið.

3. Skerið brie ostinn næst í teninga og steikið stutta stund upp úr smjöri, dreifið síðan úr ostinum yfir salatið (teningarnir bráðna vel niður og gott er að nota gaffal til að taka þá af pönnunni og koma yfir á salatið).

4. Stráið nú pistasíum yfir allt saman og toppið með hunangi og balsamik gljáa.

5. Berið fram á fallegan hátt.

Dýrðlegt þetta sumarlega salat og á eftir að slá í …
Dýrðlegt þetta sumarlega salat og á eftir að slá í gegn í næstu grillveislu. Ljósmynd/Berglind Hreiðars
mbl.is