Einstakur styrktarkvöldverður á Monkeys sem á sér fáa líka

Eyþór Gylfason, matreiðslumaður á Monkeys, efnir til kvöldverðar til styrktar …
Eyþór Gylfason, matreiðslumaður á Monkeys, efnir til kvöldverðar til styrktar Krabbameinsfélaginu á morgun, fmmtudag. mbl.is/Hákon Pálsson

Fimmtudaginn 8. júní næstkomandi, á morgun, klukkan 18.00 mun Eyþór Gylfason, matreiðslumaður á Monkeys, standa fyrir góðgerðarkvöldi til styrktar Krabbameinsfélagi Íslands. Boðið verður upp á sjö rétta máltíð með óáfengri drykkjapörun. Eyþór var í viðtali við Morgunblaðið á dögunum þar sem hann segir frá móðurmissinum og hvernig hann hefur tekist á við missinn sem má lesa hér.

Borðin verða „community table“ svo kvöldið býður upp á góðan mat, fjölbreyttan félagsskap og öðruvísi drykkjapörun. Matseðillinn og kvöldið er hannað af Eyþóri sem hefur verið að matreiða og skapa síðan hann var 16 ára gamall.

Eftir áfallið langaði mig að láta þetta verða að veruleika

Hugmyndina að viðburðinum fékk Eyþór síðastliðið sumar þegar móðir hans barðist við ristilkrabbamein, en hún lést 19. nóvember síðastliðinn. „Hugmyndin var byrjuð að gerjast, en áfallið við að missa mömmu gerði það að verkum að mig langaði til að láta þetta verða að veruleika,“ segir Eyþór. „Ég lærði að lífið er stutt og hef sjaldan verið jafn fullur af eldmóði til framkvæmda. Mig langar til að nýta hann til góðra verka og ég vona að þetta framtak hvetji aðra til að láta gott af sér leiða.“

Matseðill kvöldsins er glæsilegur en boðið verður upp á sjö rétta máltíð með óáfengri drykkjapörun. Borðin verða „community table“ svo kvöldið býður upp á góðan mat, fjölbreyttan félagsskap og öðruvísi drykkjapörun. Hér má matseðilinn sem Eyþór er búinn að setja saman:

Tómatseyði

Íslenskir tómatar, steinselja og rúgbrauðsflögur

Laxa mósaík

Sýrður blaðlaukur, kryddjurtakrem og stökkar nípur

Grafið lambainnralæri

Möndlumulningur, graslaukskrem, enoki sveppir og 24 mánaða Feykir

Smjörpóseraður karfi

Djúpsteikt polenta, gerjaðar gulbeður, rifsber og hvítvínssósa

Gljáð svínasíða

Hvítlaukskartöflumús, sellerírótarmauk, stökkt grænkál og trufflugljái

Bláber

Bláberjaseyði, fennel og appelsínur

Basil og límónu lagterta

Matargestir eiga von á ævintýralegri matarupplifun sem á eftir að verða eftirminnileg og gleðja bragðlaukana. Krabbameinsfélagið hugsar mikið um samfélagið og matreiðslumenn þurfa að hugsa samsvarandi um umhverfið. Þess vegna leggur hann Eyþór mikla áherslu á að nota íslenskt hráefni og hugsa um kolefnissporið. Allur ágóði af þessum kvöldverði mun renna beint til Krabbameinsfélagsins.


 

mbl.is