Guðdómleg vanillukaka heitasti sumareftirrétturinn

Ólöf Ólafsdóttir konditori og nýr liðsmaður í íslenska kokkalandsliðinu er …
Ólöf Ólafsdóttir konditori og nýr liðsmaður í íslenska kokkalandsliðinu er annáluð fyrir kunnáttu sína í eftirréttagerð og þekkt fyrir að töfra fram dýrindis eftirrétti. Ljósmynd/Ruth Ásgeirsdóttir

Ólöf Ólafsdóttir konditori og nýr liðsmaður í íslenska kokkalandsliðinu er annáluð fyrir kunnáttu sína í eftirréttagerð og þekkt fyrir að töfra fram dýrindis eftirrétti sem gleðja bæði auga og munn.

Hún veit fátt skemmtilegra en að útbúa góða og ljúffenga eftirrétti og sumarið er tíminn þar sem ástríðan blómstrar enn frekar í eftirréttagerð þar sem ávextirnir fá að njóta sín. Ólöf á sér nokkrar uppáhaldseftirrétti og deilir hér með lesendum einum af sínum uppáhalds.

„Í tilefni þess að ferskjur eru í fullum blóma núna fannst mér tilvalið að henda í þessa karamellu- og ferskjuköku. Kakan er auðveld að gera, rústik og einstaklega skemmtileg fyrir grillveisluna,“ segir Ólöf. „Ég elska gamaldags eftirrétti eins og til dæmis sígilda sjónvarpsköku ásamt möndlukökunni góðu en þær eru í miklu uppáhaldi hjá mér.“

Tvö stór verkefni

Þessa dagana stendur Ólöf í ströngu og tvö stór verkefni eru í gangi sem eiga hug hennar allan. „Það sem ég er að bralla þessa dagana eru landsliðsæfingar en ég ákvað að slást í lið með þeim fyrir Ólympíuleikana, þar komum við til með að keppa fyrir Íslands hönd í febrúar 2024. Ég er ekkert smá spennt fyrir þessu ævintýri og að keppa með þessum frábæru krökkum.“

Síðan er það hitt leyndardómsfulla stóra verkefnið sem Ólöf var að ljúka við. „Ég hef einnig síðustu mánuði verið að vinna í stóru verkefni sem ég var loksins að klára og ég hlakka mikið til að segja lesendum frá því. En það mun koma í ljós bráðum þannig að ef þið viljið fylgjast betur með þá mæli ég með að kíkja á instagram-reikninginn minn  fyrir komandi ævintýri,“ segir Ólöf og bíður spennt eftir því að geta ljóstrað upp leyndarmálinu.

Hér er sumareftirrétturinn hennar Ólafar og þetta gæti orðið heitasti sumareftirrétturinn í ár.

Guðdómleg vanillukakan hennar Ólafar með sumarlegu ívafi. Ferskjurnar setja þennan …
Guðdómleg vanillukakan hennar Ólafar með sumarlegu ívafi. Ferskjurnar setja þennan sumarleg blæ yfir kökuna. Ljósmynd/Ruth Ásgeirsdóttir

Vanillukaka – sumareftirréttur að hætti Ólafar

 • 110 g smjör
 • 150 g sykur
 • 3 egg
 • ¼ tsk. salt
 • 130 g hveiti
 • 2 tsk. lyftiduft
 • 2 msk. mjólk
 • 1 tsk. vanilludropar
 • 3 stk. ferskjur skornar í fallegar sneiðar

Aðferð:

 1. Byrjið að hita ofninn í 175°C hita.
 2. Þeytið smjör og sykur saman í skál þangað til það er orðið ljóst og létt.
 3. Eftir það bætið einu eggi út í í einu, stoppið inn á milli til að skafa hliðar skálarinnar með sleikju svo allt blandist vel saman.
 4. Þegar eggin eru komin saman við er þurrefnunum bætt út í ásamt mjólkinni og vanilludropunum.

Karamella

 • 100 g sykur
 • Smá vatn til að hylja sykurinn.
 • 20 g smjör
 • 20 g heitur rjómi

Aðferð:

 1. Brúnið sykurinn og vatnið í potti.
 2. Þegar sykurinn er orðinn gullinbrúnn er smjörinu bætt saman við og að lokum heita rjómanum.
 3. Slökkvið svo undir pottinum.
 4. Raðið ferskjunum í 15 sentimetra kökuform og hellið karamellunni yfir.
 5. Þar á eftir er kökudeiginu sprautað ofan á karamelluna.
 6. Bakið kökuna í 175°C heitum ofni í 20-25 mínútur eða þangað til kakan er orðin gullinbrún. Þegar kakan hefur kólnað smá er henni snúið við á tertudiski.
 7. Mér þykir best að bera hana fram volga, hún passar einnig sérstaklega vel með vanilluís, svo sumarlegt og ferskt.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: