Vanillubollakökur með ljúffengu kaffi- og karamelluskyrsmjörkremi

Æðislegar þessar girnilega vanillubollakökur með kaffi og karamellu skyrsmjörkremi.
Æðislegar þessar girnilega vanillubollakökur með kaffi og karamellu skyrsmjörkremi. Ljósmynd/Linda Ben

Hér erum við með æðislegar vanillubollakökur með einstaklega ljúffengu kaffi- og karamelluskyrsmjörkremi úr smiðju Lindu Ben uppskriftarhöfundi sem heldur úti uppskriftasíðunni Linda Ben. Linda kann að töfra fram girnilegar kræsingar sem veita vellíðan og ánægju, auk þess að allt sem hún gerir er svo fallegt. Skyrsmjörkremið á bollakökunum er náskylt rjómaostasmjörkremi, það er léttara og mýkra en venjulegt smjörkrem og þetta súra bragð af skyrinu kemur á móti sætunni í smjörkreminu og gerir það alveg ómótstæðilega gott.

Vert er að hafa það í huga skyrsmjörkrem hentar ekki í tveggja hæða kökur þar sem það er of mjúkt en ofan á bollakökur og skúffukökur er það svakalega gott, flauelsmjúkt og fagurt.

Vanillubollakökur með kaffi- og karamelluskyrsmjörkremi

Vanillubollakökur

 • 125 g smjör
 • 200 g sykur
 • 2 egg
 • 1 eggjahvíta
 • 2 tsk. vanilludropar
 • 200 g hveiti
 • 1 tsk. matarsódi
 • 1 tsk.  lyftiduft
 • ½ tsk. salt
 • 180 ml ab-mjólk frá Örnu mjólkurvörum

Aðferð:

 1. Kveikið á ofninum og stillið á 175°C, undir- og yfirhita.
 2. Þeytið smjörið og sykur þar til létt og ljóst.
 3. Bætið eggjunum út í, eitt í einu og þeytið á milli.
 4. Bætið eggjahvítunni út í og þeytið.
 5. Bætið vanilludropunum saman við og þeytið.
 6. Blandið saman hveitinu, matarsóda, lyftidufti og salti. Bætið út í deigið og blandið saman létt.
 7. Blandið gríska jógúrtinu saman við.
 8. Setjið pappísbollakökuform í bollakökuformsálbakkann og fyllið formið upp að 2/3. Bakið í 15-20 mín eða þar til kökurnar eru bakaðar í gegn.
 9. Kælið kökurnar.

Kaffi- og karamelluskyrsmjörkrem

 • 250 g smjör
 • 200 g kaffiskyr með karamellu frá Örnu mjólkurvörum
 • 400 g flórsykur
 • Karamellusósa til að skreyta bollakökurnar

Aðferð:

 1. Þeytið smjörið vel og lengi þar til það er orðið ljóst, bætið þá út í flórsykrinum og þeytið áfram þar til kremið er orðið silkimjúkt og létt.
 2. Bætið skyrinu út í smjörið og blandið saman.
 3. Bætið flórsykrinum út í og hrærið þar til kremið er orðið létt og loftmikið.
 4. Sprautið kreminu á bollakökurnar og skreytið með tilbúnu karamellusósunni.
 5. Berið fram á fallegan hátt sem fangar bæði auga og munn.
mbl.is